Alltaf vitlaust veður

Deila:

,,Það tekur því ekki að tala um aflann. Það er alltaf vitlaust veður og maður þakkar fyrir að geta dýft trolli í sjó. Við eigum að koma til hafnar, samkvæmt áætlun, á mánudagsmorgun en ég veit ekki hvað gerist. Það er enn ein óveðursspáin í kortunum fyrir helgina og gangi hún eftir verður ekkert veiðiveður.“
Þetta sagði Haraldur Árnason, skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK, er tal náðist af honum á heimasíðu Brims fyrir helgina. Höfrungur III var þá að veiðum í nágrenni Eldeyjar.
,,Það er aldrei þessu vant þokkalegt veður núna en það var skítabræla í nótt,“ segir Haraldur en hann tók við togaranum eftir millilöndun og fór út á miðvikudag í fyrri viku.
,,Við áttum að fara út á þriðjudag en því var frestað um sólarhring vegna sprengilægðarinnar sem þá gekk yfir vestanvert landið.
,,Það var enn snælduvitlaust veður þegar við fórum út en við náðum í framhaldinu þremur þokkalega góðum dögum á Vestfjarðamiðum. Svo hrökkluðumst við þaðan vegna veðurs og ég held ég geti fullyrt að enginn hafi verið á miðunum vegna veðurs alla þessa viku,“ segir Haraldur en að hans sögn verða menn að sætta sig við orðinn hlut.
,,Við ráðum ekki veðrinu og það eina sem við getum gert er að leita að vænlegum stað til að athafna sig á. Stundum tekst það. Stundum ekki,“ segir Haraldur Árnason.

 

 

Deila: