Erum bara rétt að byrja

Deila:

„Við erum bara rétt að byrja. Sem betur fer hefur þetta  hetta mál ekki haft teljandi áhrif á reksturinn og það er fyrst og fremst ykkur að þakka. Það er vöxtur í sölunni og veiðar og vinnsla ganga vel. Þá hafa samstarfsfélagar okkar hér heima og erlendis staðið með félaginu. Það er baráttuhuguur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðvum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins er björt,“ segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Samherja í „Þorláksmessubréfi“ til starfsmanna.

Þá segist hann vonast til þess að rannsóknin sem félagið hrinti af stað vegna starfseminnar í Namibíu muni skila niðurstöðum fljótlega á næsta ári.

Bréfið hljóðar svo í heild sinni:

Ágætu vinnufélagar.

Þegar ég tók við sem starfandi forstjóri Samherja vissi ég að það væru öflugir starfsmenn hjá fyrirtækinu. Öðruvísi hefði það ekki orðið leiðandi í evrópskum sjávarútvegi. Hins vegar kom það mér ánægjulega á óvart hvað mannauðurinn í félaginu er í raun og veru framúrskarandi. Þetta hef ég skynjað mjög sterkt undanfarnar vikur. Það er greinilega valinn maður í hverju rúmi. Góður liðsandi er ríkjandi og fyrirtækjamenningin er þannig að það er alltaf gaman í vinnunni, sama hvers eðlis verkefnin eru.

Óveðrið sem lék landsmenn grátt fyrr í þessum mánuði olli talsverðu tjóni á landsbyggðinni. Rafmagnsleysið í kjölfar veðurofsans varð þess valdandi að öll vinnsla okar á Dalvík lá niðri í fimm daga og hleypur tjón vegna þess á tugum milljóna króna. Hins vegar tókst að afstýra tjóni vegna hráefnis og hluti starfsmanna á Dalvík færði sig yfir til Akureyrar þar sem við jukum framleiðsluna tímabundið meðan það var rafmagnslaust á Dalvík.

Blessunarlega varð ekkert tjón á tækjabúnaði og skipum. Vinnsla hófst svo aftur á Dalvík síðastliðinn þriðjudag. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til viðbragðsaðila fyrir þeirra óeigingjarna starf í kjölfar rafmagnsleysisins. Ég vil jafnframt þakka þeim starfsmönnum, sem færðu sig tímabundið til Akureyrar, alveg sérstaklega fyrir.

Hvað önnur mál varðar þá get ég upplýst að þeirri rannsókn sem við hrintum af stað vegna starfseminnar í Namibíu miðar ágætlega. Við vonumst til þess að niðurstöður hennar liggi fyrir fljótlega á nýju ári. Það er markmið okkar að félagið standi af sér storminn og komi mun sterkara í gegnum hann.

Ég veit að sum ykkar vildu að Samherji svaraði ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafti. Ekki velkjast í neinum vafa um að við munum leiðrétta allar rangfærslur um félagið. Við erum bara rétt að byrja. Sem betur fer hefur þetta mál ekki haft teljandi áhrif á reksturinn og það er fyrst og fremst ykkur að þakka. Það er vöxtur í sölunni og veiðar og vinnsla ganga vel. Þá hafa samstarfsaðilar okkar hér heima og erlendis staðið með félaginu. Það er baráttuhugur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins sé björt.

Það er einlæg von mín að þið njótið jólahátíðarinnar með ykkar nánustu. Það mun ég sjálfur gera. Þið megið vera stolt af ykkar framlagi á árinu sem er að líða. Stjórnendur Samherja horfa bjartsýnum augum til nýs árs enda mörg spennandi verkefni í farvatninu. Að þessu sögðu óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

 

 

Deila: