Skiptar skoðanir um fiskeldi í Seyðisfirði
Nokkuð hefur borið á óánægju á Seyðisfirði með áform um laxeldi í firðinum en Fiskeldi Austfjarða lætur nú meta umhverfisáhrif af tíu þúsund tonna eldi í firðinum. Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, sem er í forsvari fyrir félagið Vá, félag um verndun fjarðar, segir að fjöldi íbúa vilji ekki laxeldi í firðinum en lítið samráð hafi verið haft við íbúa. Forsvarsmenn laxeldisins hafi gefið það út að starfsemi hefjist í firðinum á næsta ári, en ekkert leyfi sé enn fyrir því.
Benedikta, Sigfinnur Mikaelsson og Þóra Bergný Guðmundsdóttir voru gestir Egils Helgasonar í Silfrinu á sunnudag. Þau Benedikta og Sigfinnur eru stjórnarmenn í VÁ sem var stofnað í byrjun árs. Sigfinnur segir að ekki hafi verið hlustað á heimamenn í ferlinu. „Eins og ferlið á að vera, þegar að Hafrannsóknarstofnun er búin að burðarþolsmeta þá átti það að fara í umhverfismat,“ segir Sigfinnur. Og Þóra Bergný tók við, „sem þýðir að íbúarnir eiga að koma að borðinu. Þetta ferli hefur aldrei farið í gang, þannig að þetta er eins og að vera í ofbeldissambandi, við vitum ekki alveg hvar við stöndum,“ segir Þóra Bergný.
Seyðfirðingar eru ósáttir við að eldið þurfi ekki að lúta nýju skipulagi haf- og strandsvæða sem er í vinnslu. Fiskeldi Austfjarða hóf umsóknarferli áður en lög um það skipulag komu til 2018. Sigfinnur segir lögfræðing samtakanna draga í efa að eldið sé undanþegið lögunum.
Talsmenn laxeldisfyrirtækjanna segja aðstæður til ræktunar á laxi í sjó mjög hagstæðar hér við land, sérstaklega vegna hitastigs sjávar í fjörðunum. Þá skili eldið miklu til samfélagsins og skapi fjölda starfa. „Þetta skapar störf en á kostnað hvers, þetta er á kostnað náttúrunnar. Þetta rústar lífríki fjarðanna, á einhverjum árum. Menn segja að þetta sé afturkræft, en afturkræft hvenær, þegar fyrirtækin eru hætt. Þau eru kannski starfandi þarna og það safnast upp drullan frá lífríkinu, frá fiskinum, árum saman og þetta safnast bara fyrir. Og þetta er bara á kostnað náttúrunnar,“ segir Sigfinnur.