,,Eðlilegt að leggja ríka áherslu á framtíðina með Dynice Optical Data höfuðlínukaplinum”

Deila:

,,Sýningar almennt séð og ekki hvað síst sýning eins og þessi hér á Íslandi eru mjög mikilvægar fyrir Hampiðjuna til að hitta og efla tengslin við núverandi viðskiptavini og stofna til nýrra kynna. Einnig eru þær góður vettvangur til að kynnar nýjungar. Á þessari sýningu kynnum við nýja DynIce Optical Data ljósleiðarakapalinn og möguleika hans ásamt því að kynna nýjar útfærslur í flot- og botntrollum.”

Þetta segir Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland, í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar. Rætt er við hann í tilefni af Íslensku sjávarútvegssýningunni IceFish sem opnuð verður í Fífunni í Kópavogi nú á miðvikudaginn en sýningin mun standa fram til föstudagsins 10. júní.

Jón Oddur Davíðsson

,,Við hjá Hampiðjunni horfum til framtíðar og einbeitum okkur að því að þróa vörur sem auka veiðigetu fiskiskipa og betri valhæfni veiðarfæranna á þeim fiski sem veiðist. 

DynIce Optical Data er metnaðarfyllsta vöruþróun okkar til þessa og er lykill að byltingu á því sviði því með ljósleiðaratengingu við veiðarfærið opnast möguleiki á að velja þann fisk sem á að fanga í trollinu meðan á togi stendur,” segir Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar og uppfinningamaður en ljósleiðarakapallinn er eitt af hugarfóstrum hans.

”Ljósleiðarakapallinn er að okkar mati fullhannaður og tilbúinn til notkunar en það hefur sýnt sig að hefðbundnar höfuðlínukapalsvindur henta ekki fyrir ljósleiðarakapla og því er unnið að því að hanna og smíða nýja gerð af kapalvindum í samstarfi við NaustMarine og vonir standa til að hægt verði að prufa kapalvinduna næsta vetur,” segir Hjörtur ennfremur.

Hjörtur Erlendsson

Eitt af samstarfsfyrirtækjum Hampiðjunnar er danski toghleraframleiðandinn Thyborøn. Jón Oddur segir Thyborøn verða með sinn eigin bás á sýningunni en starfsmenn Hampiðjunnar og Thyborøn muni vinna mjög náið saman. Víraframleiðandinn Oliveira frá Portúgal er einnig með sérstakan sýningarbás og starfsmenn þeirra verða einnig mikið á sýningarbás Hampiðjunnar.

Sýningarbás Hampiðjunnar er númer D 50 og er hann 117 m² að flatarmáli. Auk Hampiðjunnar verður dótturfélagið Voot á básnum og kynnir þar framleiðslulínu sína og búast má við að starfsmenn á sýningarbásnum verði allt að 15 talsins.

,,Covidfaraldurinn varð til þess að fresta þurfti sýningunni tvisvar. Hún átti upphaflega að vera í september 2020 og svo árið 2021 en nú er gott lag.  Við búumst við mjög góðri sýningu að þessu sinni enda langt frá þeirri síðustu hér á landi. Það er erfitt er spá fyrir um fjölda gesta því sýning sem þessi hefur ekki verið haldin í sumarbyrjun áður. Við væntum þess þó að þeir sem eru í þessari atvinnugrein og þá sérstaklega innlendir gestir láti sjá sig og gefi sér góðan tíma til að spjalla við okkur og þiggja veitingar,” segir Jón Oddur Davíðsson.

Deila: