Tímamótatúr Breka í aðdraganda sjómannadags

Deila:

Breki VE kom að landi síðdegis á miðvikudag 8. júní, úr síðustu veiðiferð fyrir sjómannadag. Aflinn var blandaður, 140 tonn af ýsu, karfa, ufsa og fleiri tegundum.

Veiðiferðin markaði merkileg tímamót í tvennum skilningi:

  • Ríkarð Magnússon var skipstjóri í fyrsta sinn.
  • Stefán Birgisson yfirstýrimaður lauk 30 ára starfsferli sínum á skipum Vinnslustöðvarinnar.

Að sjálfsögðu var tekið á móti skipinu og áhöfn þess með brosi og blómum. Lilja Björg Arngrímsdóttir, forstöðumaður starfsmannasviðs VSV, og Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnsviðssviðs VSV, fögnuðu áföngum Ríkarðs og Stefáns alveg sérstaklega.

Á bryggjunni var Magnús Ríkarðsson skipstjóri á Breka. Hann er nýstiginn upp úr COVID, fór því ekki um borð en fagnaði þeim mun meira úr fjarlægð.

Magnús er faðir Ríkarðs og var í fríi í þessum túr Breka. Sömu sögu var að segja um Berg Guðnason yfirstýrimann og afleysingaskipstjóra. Það hefur ekki gerst frá því Breki kom til landsins frá Kína árið 2018 að þessir heiðursmenn, Magnús og Bergur, hafi verið samtímis í fríi í veiðiferð!

Ríkarð Magnússon – Rikki hefur verið bátsmaður eða stýrimaður á Breka frá upphafi og var í áhöfn skipsins í heimsiglingunni frá Kína. Hann var áður á Drangavík VE og leysti þar af sem skipstjóri.

Stefán Birgisson hefur verið stýrimaður á Breka frá upphafi. Hann var lengi stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Drangavík og þar á áður á Sindra VE og Frigg VE.

Stefán verður ekki verklaus að sjómennskuferlinum loknum. Hann hefur um árabil rekið Hótel Hamar með fjölskyldu sinni og svo stundar hann hestamennsku. Fleira mætti sjálfsagt tína til sem hann getur beitt sér að af mun meiri krafti en áður.

Veiðiferð Breka gekk vel í alla staði hjá tímamótamönnum dagsins, Rikka og Stefáni, enda toppmenn á toppskipi með toppáhöfn!
Frétt af vsv.is

Deila: