„Vil skapa sátt um sjávarútveginn“

Deila:

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, er bjartsýn fyrir hönd íslensks sjávarútvegs og segir tækifærin á hverju strái. Hún hefur ýtt úr vör umfangsmikilli vinnu sem miðar að því að skapa sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Gera þurfi margar litlar breytingar til að leysa djúpstæðan ágreining í samfélaginu. Hún vill þó ekki kollvarpa kerfinu. „Það gengur ekki til lengdar að bæði séu tilefni og ástæður til að upp byggist tortryggni gagnvart svona stórri atvinnugrein. Því miður hafa komið upp slík tilfelli á undanförnum árum.“ Þetta segir Svandís, sem er ráðherra sjávarútvegsmála. Svandís tók stöðu matvælaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna eftir alþingiskosningar í haust en kjörtímabilið á undan gegndi hún stöðu heilbrigðisráðherra. Rætt er við Svandísi í nýjasta tölublaði Sóknarfæris, sem gefir er út af Ritformi. Gripið er inni í viðtalið hér en það má lesa í heild á slóðinni https://ritform.is/wp-content/uploads/2022/06/soknarfaeri_3_tbl_JUNI_2022.pdf

Veiðigjöld endurskoðuð

Svandís segir að vinna þessara hópa miði meðal annars að því að breyta gjaldtökukerfin u – veiðigjöldunum – með einhverju móti. Hún nefnir að núverandi fyrirkomulag sé þannig að ríkið innheimti afkomutengdar greiðslur sem byggi á veiðum tveimur árum fyrr.

„Við innheimtum veiðigjöld á þessu ári sem byggja á aflanum 2020. Þá var til að mynda engin loðnuvertíð. Við erum nánast í metári á þessu ári en það kemur ekkert fyrir það í kassann fyrr en 2024, þegar aðstæður kunna að vera gjörbreyttar. Þetta er þess virði að skoða.“

Hún nefnir fleiri atriði sem horfa þurfi til. Mjög miklu máli skipti að í stjórnarskrá landsins sé skýrt kveðið á um að auðlindir séu í eigu þjóðarinnar. „Við getum líka gert miklu betur varðandi milliverðlagningu, gagnsæi vegna tengdra aðila í sjávarútvegi og annað sem snýr að trúverðugleika kerfisins. Það skiptir mjög miklu máli að almenningur – ekki síst fjölmiðlar – hafi opið aðgengi að öllum gögnum.“ Svandís segir það ekki ganga að aðstæður séu þannig að ástæður og tilefni séu til að tortryggni ríki um svo stóra atvinnugrein.

Allar leiðir skoðaðar fordómalaust

Ein af þeim kröfum sem heyrst hafa í umræðunni um sjávarútveg er að allur afli fari á markað. Markaðsleiðin leiði af sér hærra verð fyrir fiskinn. Svandís bendir á að þeir sem hafi efasemdir um þetta fyrirkomulag hafi áhyggjur af því að markaðsleiðin tryggi ekki byggðasjónarmið auk þess sem hún komi ekki í veg fyrir samþjöppun.

„Það sem skiptir máli er að við horfum fordómalaust á allar þessar leiðir sem hafa verið í umræðunni; hvort sem það er markaðsleiðin eða sú leið sem lýtur að því að grípa fastar inn í með ýmis konar byggðatengdum aðgerðum.“ Hún nefnir að fyrningarleið aflaheimilda hafi líka verið til umræðu, sem og leiðir til að tryggja nýliðun í kerfinu. „Helsti veikleiki kerfisins í dag er skortur á möguleikum til nýliðunar,“ segir Svandís og tekur fram að það sé eitt af því sem til standi að skoða.

Vegur strandveiða verði aukinn

Strandveiðar eru hafnar þetta árið en því kerfi var komið á fót af ríkisstjórn Samfylkingar og VG fyrir 14 árum. Svandís segir þessar veiðar skipta mjög miklu máli. Þær hafi margháttaða skírskotun. Undir séu félagsleg- og byggðaleg sjónarmið; líf færist á bryggjurnar og í strandveiðum felist möguleikar fólks til að taka þátt í veiðunum. Hún nefnir líka að á strandveiðum verði til verkþekking og að þær geti sameinað kynslóðir.

„Ég sé framtíð strandveiða sem öflugan og vaxandi hluta af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ segir hún. Heimilt verður að veiða 10 þúsund tonn af þorski á strandveiðum í sumar, sem er heldur minna en í fyrra. Vegna skerðingar aflamarks hefur hlutfall strandveiða þó aldrei verið hærra. Strandveiðar standa yfir í fjóra mánuði, frá maí og út ágúst, en í fyrra kláraðist potturinn 18. ágúst, áður en hægt var að fullnýta dagana 48. Þessu fyrirkomulagi fylgir innbyggt óréttlæti á milli landshluta, þar sem þorskur gengur til dæmis ekki að landi á Norðausturlandi fyrr en vel líður á júlí. Þá er besti tíminn fyrir vestan land yfirstaðinn.

Svandís segist meðvituð um þetta óréttlæti. „Við viljum sjá til þess að hægt verði með einhverju móti að auka jafnræði á milli svæða. Þar horfum við helst á norðaustursvæðið.“ Hún bætir hins vegar við að þetta sé vandasamt verk og áréttar að hlutur strandveiða sé meiri nú en áður, þó ákveðnar ástæður séu fyrir því að á endanum hafi verið hægt að veiða meira í fyrra. „Þetta er sú þróun sem ég myndi vilja sjá. Ég sé fyrir mér að strandveiðar verði vaxandi hluti. Minn hugur stendur til þess að þetta verði styrkt og að við nýtum það sem til fellur í þágu strandveiða.“

Annar þáttur félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins er byggðakvótinn. Saman fá þessi kerfi 5,3% aflamarks þorsks en nokkuð hefur borið á óánægju með hvernig byggðakvótanum er úthlutað. Svandís segir mikilvægt að skoða gaumgæfilega hvort þessi kerfi nái þeim markmiðum sem að er stefnt, þegar kemur að byggðasjónarmiðum.

„Það þarf að skoða hvort byggðapottarnir séu raunverulega að nýtast byggðunum eða hvort þeir nýtast einhverjum öðrum sjónarmiðum.“ Hún nefnir umræðu um að byggðakvótinn renni til stöndugra útgerða en einnig umræðu um vinnsluskyldu. „Við sjáum líka að byggðakvóti Byggðastofnunar hefur verið að nýtast misvel fyrir viðkomandi svæði. Við gætum líka talað um línuívilnun, rækju- og skelbætur og auðvitað þá staðreynd hversu vel strandveiðarnar hafa nýst.“

Hún segir tvennt koma til álita. „Annars vegar að horfa til þess að færa aflaheimildir á milli kerfa í félagslega hlutanum og endurmeta regluverkið í kringum hvern lið fyrir sig. Hins vegar að auka í fyllingu tímans hlut þessara félagslegu úrræða innan kerfisins. Minn hugur stendur til þess og það er stefna okkar í VG. Þá verður líka að tryggja að þessi kerfi séu í raun að ná þeim markmiðum sem að var stefnt.“

Deila: