Færeyingar fá MSC vottun á hörpudiskveiðar

Deila:

Veiðar á hörpudiski við Færeyjar hafa fengið vottun MSC um sjálfbærni veiðanna, ábyrga umgengni um vistkerfið og ábyrga fiskveiðistjórnun. Sjálfstæð úttektarstofnun gekk úr skugga um að veiðarnar uppfylli öll skilyrði Marine Stewardship Coundil.

Vottunin miðast við 1. september á síðasta ári verður nú heimilt að merkja afurðir sem framleiddar hafa verið frá og með þeim degi með umhverfismerki MSC. Helstu markaðir fyrr hörpudiskinn er í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

Veiðar á hörpudiski við Færeyjar eru einstakar á þann hátt að eina fyrirtækið sem þær stundar og hefur stundað árum saman er O.C. Joensen. Veiðarnar hafa verið stundaðar af einu skipi áratugum saman. Ný sjálfstæð fiskveiðistofnun í Færeyjum, Faroe Islands Sustainable Fisheries, hefur séð um úttektina og hefur unnið með stjórnvöldum, hafrannsóknastofnun og sérstökum ráðgjöfum við hana.

Gísli Gíslason svæðisstjóri MSC fyrir Norður-Atlantshafið, segir að þessar veiðar uppfylli hin ströngu viðmið sem sett séu fyrir umhverfisvottun MSC og geti því boðið úrvalsafurðir á mörkuðunum. OCJ hafi lagt mjög hart að sér til að veiðar og vinnsla falli að kröfum markaðsins. „Við óskum OCJ og FISF til hamingju með árangurinn og hrósum þeim fyrir að hafa náð þessu markmiði,“ segir Gísli.

Durita í Grótinum, framkvæmdastjóri FISF, segir að vottun veiða á hörpudiski við Færeyjar sé enn einn mikilvægi áfanginn í þróun færeysks sjávarútvegs. Stöðugt sé unnið að því að nýta auðlindir hafsins umhverfis Færeyjar á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Í fyrra hafi fengist vottun á veiðar á þorski og ýsu innan lögsögu Færeyja og þannig séu veiðar út helstu nytjastofnum þegar vottaðar samkvæmt viðmiðum MSC. Vinnan við að öðlast vottun á hörpudiskveiðunum hafi verið tímafrek og því ánægjulegt að markmiðið um vottun hafi náðst. Hafrannsóknastofnun Færeyja hafi komið mikið við sögu við að afla nauðsynlegra upplýsinga og gagna til að styðja við vottunina.

Hans Andrias Kelduberg, stjórnarmaður OCJ, segist vera mjög ánægður með veiðar þeirra á hörpuskel skuli hafa fengið vottun MSC um sjálfbærni. Fyrirtækið hafi stundað þessar veiðar áratugum saman og takmarkað sóknina við eitt skip hverju sinni á stuttri vertíð. Þannig hafi verið stuðlað sjálfbærni og góðri umgengni um lífríkið. „Vottunin um sjálfbærni er mjög mikilvæg fyrir viðskiptavini okkar, þar sem þeir geta nú reitt sig á alþjóðlega viðurkenningu um vottun veiðanna.“

Deila: