Jafnvægi og vellíðan hjá Síldarvinnslunni

Deila:

Í þessari viku mun hefjast heilsueflingarverkefni hjá Síldarvinnslunni sem hefur hlotið nafnið „Jafnvægi og vellíðan“. Verkefnið mun standa í allan vetur og er markmið þess að stuðla að aukinni meðvitund um mikilvægi þess að huga að heilsunni með fyrirbyggjandi hætti. Í boði verða fyrirlestrar og fræðsla um næringu, hreyfingu, svefn, slökun og andlega heilsu, auk þess sem boðið verður upp á einstaklingsmiðaða einkaráðgjöf og kennslu fyrir þá sem vilja meiri stuðning við lífstílsbreytingar. Einnig mun næringarfræðingur fara yfir fæðuframboð hjá fyrirtækinu, bæði til sjós og lands, skoða hvort tilefni sé til breytinga og veita kokkum og matráðum ráðgjöf. Austurbrú mun annast framkvæmd og utanumhald verkefnisins, en Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri mannauðs og samskipta hjá Síldarvinnslunni hefur unnið að undirbúningi með starfsfólki Austurbrúar. En hvernig er þetta verkefni til komið?

„Það er auðvitað sífellt algengara að fyrirtæki hugi að þessum málaflokki og Síldarvinnslan hefur áður gert ýmislegt til að fræða og hvetja starfsfólk til að huga að heilsunni. Við höfum t.d. lengi niðurgreitt líkamsrækt, greitt samgöngustyrki og staðið fyrir ýmiskonar heilsutengdri fræðslu“, segir Sigurður í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Okkur fannst hins vegar sérstakt tilefni til að huga betur að þessu núna, af ýmsum ástæðum. Við fengum nýverið risavaxna áminningu um mikilvægi heilsunnar þegar heimsfaraldurinn gekk yfir, en Covidveiran er sérlega hættuleg þeim sem eru með undirliggjandi heilsufarsvanda. Mörg þeirra vandamála eru fyrirbyggjanleg með því að huga að grunnþáttum heilsunnar, næringu, hreyfingu, svefni og slökun. Það bendir hins vegar ýmislegt til þess að margir séu ekki í nógu góðum málum hvað þessa þætti varðar og samanteknar niðurstöður heilsufarsskoðana sem fyrirtækið Sjómannaheilsa framkvæmir fyrir okkur benda til þess að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessu. Talsverður hluti starfsfólks virðist ekki vera á nógu góðu róli hvað varðar grunnþætti á borð við blóðþrýsting, líkamsþyngd og hreyfingu og þótt ég sé ekki ekki viss um að staðan hjá okkar fólki sé neitt verri en gengur og gerist, þá er þetta samt áhyggjuefni. Okkur finnst ljóst að það hefur aldrei verið mikilvægara að hvetja og styðja þá sem vilja huga betur að heilsunni og stuðla að auknu jafnvægi og vellíðan okkar fólks“, segir Sigurður.

Verkefnið mun standa í allan vetur og verða sagðar fréttir af því reglulega. Starfsfólk er eindregið hvatt til að taka þátt, horfa á fyrirlestrana (sem verða bæði á íslensku og ensku) og nýta sér þau úrræði sem verða í boði, en starfsfólk mun einungis þurfa að greiða lítinn hluta kostnaðar við einstaklingsúrræðin. En af hverju eru þau ekki alveg ókeypis? „Það er vegna þess að reynslan sýnir að fólk er líklegra til að detta út úr úrræðum sem eru alveg ókeypis. Það hefur sálræn áhrif að leggja eitthvað undir og skuldbinda sig. Við vonum að sem flestir nýti þessi úrræði, en það er ekki víst að það komist allir strax að sem vilja, þannig að það er um að gera að sækja sem fyrst um!,“ segir Sigurður. En hvað er fyrst á dagskránni?

„Fyrsta atriðið á dagskránni er skemmtilegur og hvetjandi fyrirlestur þar sem Erla Guðmundsdóttur fjallar um heilsuna í víðu samhengi. Erla er íþróttafræðingur, heilsumarkþjálfi, næringarþjálfi og þjálfari og vinnur við það alla daga að hjálpa fólki að bæta heilsuvenjur sínar. Fyrirlesturinn verður á ensku miðvikudaginn 20. september frá kl.11.30-12.30 og á íslensku föstudaginn 23. september kl.13-14. Fyrirlestrarnir fara fram á netinu og fá allir starfsmenn sendan hlekk í tölvupósti, auk þess sem þeir verða sýndir á skjá á kaffistofum þar sem slíku er við komið. Hægt verður að horfa á fyrirlesturinn í viku eftir að hann er frumsýndur. Allt starfsfólk er hvatt til að horfa á fyrirlesturinn og nýta hann til innblásturs fyrir veturinn.

 

Deila: