Loðnustofninn vanmetinn?

Deila:

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar fer yfir mælingar stofnunarinnar á loðnustofninum í nýjasta tölublaði Ægis, nú í nóvember. Auk þess er þar að finna viðtal við Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóra Ísfélags Vestmannaeyja, viðtal við Sigurð A. Kristmundsson, hafnarstjóra í Grindavík um fyrirhugaðan nýjan brimvarnargarð í Grindavík. Þá er fjallað um byltingarkennda fiskvinnsluvél frá Vélfagi og nýjan bát til Grímseyjar. Fleira fjölbreytt efni er einnig að finna í blaðinu.

„Það er athyglisvert hvað hátt hlutfall af eldri loðnu er í veiðistofninum núna. Óvenjuhátt og það helgast af því, eins og var að valda okkur vanda i fyrra, að loðnan virðist hafa frestað hrygningunni í miklum mæli. Það er nokkuð sem við sjáum oft þegar árgangar eru stórir að þá er meiri þéttleiki og minni vaxtarhraði, meiri samkeppni um fæðuna. Það er ákveðin vísbending um að þessi árgangur hafi verið verulega stór í fyrra. Vissulega kom hann til hrygningar í fyrra í töluverðu magni, þó menn hafi ekki náð að veiða allan kvótann. Með það allt í huga átti ég von á að sjá meira og mæla meira núna í haust. Tíminn verður bara að leiða það í ljós hvort það hafi verið eitthvað vanmat, eða mælingin sé einfaldlega að endurspegla stærð stofnsins og því ekki í samræmi við fyrri mælingu.“

Þetta segir Guðmundur J. Óskarsson í Ægisviðtalinu.

 

 

Deila: