Afgerandi metár framundan í komum skemmtiferðaskipa

Deila:

Skemmtiferðaskipum mun fjölga um helming í ár frá síðasta ári og farþegafjöldinn aukast um 80% gangi ný greining Ferðamálastofu eftir en hún byggir á bókunum hjá stærstu höfununum í móttöku skemmtiferðaskipa. Um er að ræða sex stærstu hafnirnar í þessari þjónustu, þ.e. Faxaflóahafnir, Akureyrarhöfn (auk Grímseyjar og Hríseyjar), Ísafjarðarhöfn, Seyðisfjarðarhöfn, Grundarfjarðarhöfn og Vestmannaeyjahöfn, hér raðað upp eftir fjölda þeirra skemmtiferðaskipafarþega sem um viðkomandi hafnir fara fara. Samtals taka Faxaflóahafnir, Akureyrarhöfn og Ísafjarðarhöfn á móti um 77% farþega skemmtiferðaskipa sem Ísland sækja heim en áðurnefndar sex hafnir tóku í heild á móti um 92% skemmtiferðaskipafarþega í fyrra.

Hér má sjá hvað er framundan í skipakomum í sumar og aukningu í prósentum frá sumrinu 2019. Ekki er raunhæft að bera saman við síðustu tvö ár vegna takmarkana sem þá voru í gildi vegna Covid.

 

Farþegafjöldinn eykst um 80% milli ára
Stærri skemmtiferðaskip lögðust nánast í dvala meðan Covid stóð sem hæst en þegar upp var staðið eftir síðasta sumar reyndust skipakomurnar álíka margar og árið 2019, sem var metár. Spá um 80% aukningu í farþegafjölda í ár vekur athygli í þessu ljósi en hún byggist ekki hvað síast á því að bókunarhlutfall var almennt takmarkað í skipunum í fyrra en slíkt verður að óbreyttu ekki upp á teningnum í ár. Ferðamálastofa telur því ekki ofmælt að á þessu ári stefni í afgerandi metár í skemmtiferðaskipasiglingum hingað til lands. Jafnframt undirstrika greinendur Ferðamálastofu að tölurnar sem spárnar fyrir árið byggja á séu mjög áreiðanlegar þar sem siglingaráætlanir séu gefnar út með löngum fyrirvara og að farþegar bóki sínar ferðir að sama skapi tímanlega.

 

Tekjurnar aukast í hlutfalli við vöxt í tonnum
Ljóst er að þjónusta við skemmtiferðaskip skila höfnum umtalsverðum tekjum og því er spáð að þær vaxi um 42% milli áranna 2022 og 2023 hjá höfnunum sex. Vöxturinn milli áranna 2017 og 2023 yrði því 191%, eða sem samsvarar 19,5% árlegum meðalvexti þessi sex ár. Vakin er sérstök athygli á því í samantekt Ferðamálastofu að hvorki eru óbeinar tekjur né tekjur annarra aðila en hafnanna inni í þessum tölu, svo sem tekjur veitingastaða, ferðaþjónustufyrirtækja, verslana og þannig mætti áfram telja.

Þá er einnig á það bent að tekjur hafnanna af skemmtiferðum vaxi í nákvæmlega sama takti og heildarstærð þeira skemmtiferðaskipa í tonnum sem nýta sér þjónustu hafnanna. Meðalstærð skemmtiferðaskipa sem hingað koma hefur einnig verið að aukast, einkum á árunum 2022-23, í samanburði við árin fyrir Covid. Meðalstærð skipa, að Vestmanneyjum undanskildum, var um 35 þúsund tonn en er um 44 þúsund tonn 2022-23 eða um fjórðungi meiri.

Á meðfylgjandi mynd leggja tvö stór skemmtiferð að bryggju á Akureyri. 

 

Deila: