Kynning hafin á sjómannasamningnum

Deila:

Kynning á nýgerðum kjarasamningi Sjómannasambands Íslands, Félags skipstjórnarmanna, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og verkalýðsfélags Grindavíkur er hafin en bæði verður hún með rafrænum hætti og á kynningarfundum á vegum félaganna. Rafræn kosning um samninginn hefst næstkomandi föstudag, 17. febrúar og lýkur henni þann 10. mars.

Byggt á fjórum stoðum
Í kynningu Sjómannasambands Íslands segir að samningurinn byggi á fjórum stoðum. Í fyrsta lagi að bæta réttindi og kjör, í öðru lagi að auka öryggi sjómanna, í þriðja lagi og að auka traust og gagnsæi og í fjórða lagi eru umbætur á samningi.
Almennir launaliðir hækka við við undirritun samnings um 13,1% og kauptrygging hækkar um 127.247 kr. á mánuði. Þá verður vinnutími styttur í þeim tilfellum þegar sjómenn eru við vinnu í landi.
Sjómönnum munu standa tvær leiðir til boða í lífeyrisréttindamálum, þ.e. að velja leið lifeyrisauka þar sem útgerð greiðir mótframlag sem er hækkað er úr 8% í 11% og 69,2% skiptaverð lagt til grundvallar. Velji sjómenn kaupaukaleið verður mótframlag útgerðar óbreytt 8% en 70,5% skiptaverð lagt til grundvallar.

Olíuverðstenging fellur brott
Þær meginbreytingar sem verða á hlutaskiptum eru að viðmið við heimsmarkaðsverð á olíu fellur úr gildi. Skipti úr heildaraflaverðmæti og 69,2% (leið A, lífeyrisauki) eða 70,5% skiptaverð (leið B, kaupauki) er lagt til grundvallar. Samhliða verður færsla yfir í nýjar skiptaprósentur.
Slysa- og veikindaréttur lengist í fjóra mánuði og sérstök öryggisnefnd mun vinna markvisst að málum er tengjast öryggi, heilsu og líðan á sjó með það að markmiði að fækka slysum og draga úr álagi. Sameiginleg heildstæð framtíðarsýn um öryggismál sjómanna, með eftirfylgni og stuðningi fyrir útgerðir og sjómenn.
Auka á gagnsæi í launauppgjörum þar sem skal tilgreina aflamagn og aflaverðmæti hverrar tegundar, tilgreina veiðiferð, tilgreina skiptingu í stærðarflokka og verð hvers flokks, tilgreina skiptaprósentu, fjölda í áhöfn og fjölda lögskráningadaga. Staðlaður fiskverðssamningur verður fyrir uppsjávarveiðar.

Kynning Sjómannsambands Íslands á kjarasamningnum

Deila: