Ráðherra fór á sýninguna í Barcelona

Deila:

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti stærstu sjávarútvegssýningu í heimi, Seafood Expo Global í Barcelona, sem haldin var dagana 25.–27. apríl. Á vef Stjórnarráðsins segir að ráðherra hafi þar heimsótt íslensk fyrirtæki sem taka þátt í sýningunni. 41 íslenskt fyrirtæki tók þátt í sýningunni en alls tóku 2.000 fyrirtæki þátt. Talið er að 29 þúsund gestir hafi heimsótt viðburðinn.

„Viðburðir sem þessir eru vitnisburðir um sterka stöðu sjávarútvegs á Íslandi á heimsvísu. Fótspor og viðvera Íslands á sýningunni var mörgum númerum stærra en stærð landsins gefur til kynna og það veitti mér innblástur að sjá kraftinn og metnaðinn sem býr í íslensku þátttakendunum á sýningunni,“ sagði ráðherra um sýninguna.

Á meðan á dvöl ráðherra í Barcelona stóð tók hún þátt í kynningarviðburðinum La Ruta dels Bunyols de Baccalá sem er samstarfsverkefni Íslandsstofu, sölusamtaka saltfiskinnflyjenda í Katalóníu og kaupmanna í Barcelona, um kynningu á íslenskum saltfiski. Í ár var lögð áhersla á að kynna klassíska katalónska saltfiskréttinn bunyols sem eru eru steiktar saltfiskbollur gerðar úr íslenskum saltfisk.

Hún heimsótti einnig verksmiðju Iceland Seafood í Viladecavalls, rétt fyrir utan Barcelona, og flutti ávarp á kynningu á sjávarútvegsfyrirtækjum skráðum í Kauphöll Íslands sem fór fram á sýningarsvæðinu. Kynningin var á vegum Kauphallar Íslands, Iceland Seafood og Icelandic Trademark Holding ITH, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Deila: