Fleiri skipta með sér strandveiðipottinum

Deila:

Mikil ásókn er í strandveiðar, samkvæmt fyrstu tölum um útgefin strandveiðileyfi. 490 höfðu fengið strandveiðileyfi við upphaf veiða í ár. Það eru 81 báti fleiri en við upphaf veiða í fyrra. Heimilt er að veiða 10 þúsund tonn af þorski á strandveiðum í ár, eins og í fyrra, en þá var 991 tonni bætt við aflaheimildina þegar leið á sumarið. Veiðar voru í fyrra stöðvaðar 21. júlí, sex vikum fyrir áætlaðan tíma.

Ef útgefnum heildarafla í þorski er deilt á fjölda báta hefði hver bátur í fyrra getað veitt 14 tonn af þorski, miðað við útreiknað meðaltal. Ef bátum fjölgar um 81 frá því í fyrra verður meðalþorskaafli á bát 12,6 tonn.

Fyrstu tölur benda til þess að bátum fjölgi enn á A-svæði en fækki á svæðum B og C. Hlutfall báta á A-svæði í fyrra var 46,8%. Hlutfallið er tæp 54% nú, miðað við fyrstu tölur um skráningu. Nokkur fjölgun virðist jafnframt ætla að verða á D-svæði, en þar var góð ufsaveiði í fyrra. Hlutfall báta á C-svæði er innan við 10%, við upphaf veiða en liðlega 15% á svæði B.

 

 

Deila: