Mikil yfirvigt hjá aflahæstu strandveiðibátunum

Deila:

Fimmtán strandveiðibátar hafa að meðaltali landað meira en 50 kílóum umfram leyfilegan hámarksafla, þegar átta veiðidagar eru að baki. Sex þeirra landa að jafnaði meira en 100 kílóum yfir þau 774 kíló sem heimilt er að koma með af þorski að landi í hverri veiðiferð. Þetta sést í tölum frá Fiskistofu.

Viðurlögin við þessu eru þau að útgerðirnar eru sektaðar upphæð sem samsvarar meðalverði á markaði þess dags fyrir umframaflann. Bent hefur verið á að þeir sem eru í stórum og verðmætum fiski geti þannig hagnast svolítið á athæfinu. Ef meðalverð á markaði er 400 krónur en meðalverð á stórfiskinum 500 krónur getur sá sem veiðir umfram leyfilegan hámarksafla haft 100 krónur pr. kíló út úr bröltinu.

Hér fyrir neðan má meðal annars sjá 20 aflahæstu bátana á strandveiðum þegar kemur að þorski. Þessir 20 bátar hafa samtals ofveitt sem nemur 8,5 tonnum af þorski það sem af er strandveiðum 2023. Níu af þessum 20 bátum landa í Vesturbyggð en fimm í Snæfellsbæ.

Heimilt er að veiða 10 þúsund tonn af þorski á yfirastandandi vertíð og koma þau tonn til frádráttar þeirri tölu, eins og önnur. 8,5 tonn nema leyfilegum hámarksdagskammti 11 báta.

Í gær var ótíð víða um land og aflabrögð á strandveiðum eftir því. Aðeins um 70 tonn komu á land. Besti dagurinn var miðvikudagurinn 10. maí, þegar ríflega 400 tonn komu á land.

Ufsaveiði hefur verið ágæt það sem af er vertíðinni. Máney SU er aflahæsti báturinn þegar kemur að ufsa, með 5,5 tonn í sjö löndunum. Máney gerir út á svæði C en næsti bátur á svæði C er með rúmt tonn af ufsa. Mesta ufsaveiðin er á svæðum A og D. Fimmtán bátar eru með meira en 3 tonn af ufsa það sem af er strandveiðum.

Búið er að veiða ríflega 21% þorskaflans sem úthlutað var að þessu sinni en 41% ufsans.

Veiðar hafa gengið best á svæði A. Þar er 50% flotans en bátarnir á svæðinu hafa landað 55% aflans. Á svæði D er 21% flotans en þar hefur 22% aflans komið að landi.

Áhugavert er að skoða þróun um útgefin strandveiðileyfi. Bátum hefur fjölgað jafnt og þétt á svæði A undanfarin ár. Á þessu ári virðist bátum á svæðum B og C hafa snarfækkað. Þó ber að hafa í huga að enn er verið að skrá báta til veiða á yfirstandandi tímabili, svo lokatölur eiga eftir að koma í ljós.

 

 

Deila: