Tortóla-dylgjum vísað til föðurhúsanna

Deila:

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2018, og á mbl.is í kjölfarið, er haft eftir Magnúsi Helga Árnasyni, fyrrverandi stjórnarmanni í Vinnslustöðinni, að hann hafi sagt sig úr stjórn fyrr í vetur vegna tregðu annarra stjórnarmanna til að láta kanna viðskipti VSV við Gordon Trade and Management LLP (GTM) í Bretlandi, sem sé eða hafi verið í eigu About fish Ltd, félags sem skráð sé í skattaskjóli á eyjunni Tortóla og beri sama nafn og fimm félög í eigu Vinnslustöðvarinnar báru.

Fyrir síðasta stjórnarfund bar Magnús Helgi fram dylgjur um að framkvæmdastjóri VSV tengdist Gordon Trade Ltd. í gegn um About Fish Ltd, staðsett í Englandi.  Málið var tekið sérstaklega fyrir á stjórnarfundi 9. nóvember 2018 þar sem fráleitum og rakalausum málatilbúnaði mannsins var svarað lið fyrir lið og m.a. upplýst um eignarhald eins og það var árið 2015. Þetta tiltekna félag, About fish Ltd. tengist Vinnslustöðinni eða eigendum hennar á engan hátt og hefur aldrei gert.

Vinnslustöðin hefur hins vegar selt GTM fisk og sama hafa mörg önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gert. Þau viðskipti sæta engum tíðindum svo vitað sé

Dylgjur Magnúsar Helga um GTM jaðra við rógburð um fyrirtækið. Í ljósi þess að hann kaus að fara með dylgjur sínar á opinberan vettvang sá GTM sér ekki annað fært en að senda nú frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að félagið eigi í alþjóðlegum viðskiptum með fisk, þar með talið íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og að engir íslenskir ríkisborgarar hafi haft fjárhagslega hagsmuni af félaginu.

Magnús Helgi Árnason sagði sig úr stjórn Vinnslustöðvarinnar vegna þess að enginn einasti hluthafi í félaginu kærði sig um að hann sæti þar áfram. Við manninum blasti að fá á sig vantraust á hluthafafundi í VSV. Hann kaus þá að láta sig þá frekar hverfa strax en reynir nú að tengja VSV við Tortóla til að draga athygli frá raunverulegum ástæðum úrsagnarinnar.

Eftir yfirlýsingu GTM stendur keisarinn nakinn.“

Get ómögulega sagt að ég sakni þeirra!

Í framhaldi af yfirlýsingunni vegna Magnúsar Helga, sem sat í stjórn VSV á vegum Guðmundar Kristjánssonar í HB Granda/Brimi er rætt við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson á heimasíðu VSV:

Eru þetta lokaorð í deilum fylkinga sem tókust á um árabil í eigendahópi Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV og einn eigenda félagsins?

„Aldrei skyldi maður nú segja aldrei! Yfirlýsing Gordon Trade and Management LLP (GTM)  rekur alla vega ofan í kok Guðmundar Kristjánssonar og erindreka hans endalausar dylgjur og rugl um erlend leynifélög og fjármálamisferli í heilan áratug. Sá ljóti leikur hófst með því að lögmaður Guðmundar bar á starfsmann og eiganda VSV í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins á árinu 2008 að sá hefði dregið sé fé í erlendum umboðsviðskiptum með mjöl og lýsi. Sá áburður endaði í rannsóknarbeiðni með tilvísun í minnihlutavernd.

Málslok þess urðu þau að Magnús Helgi Árnason lögmaður fletti bókhaldsskjölum Vinnslustöðvarinnar, tengdum meintum umboðsviðskiptum, og sagði svo:  ,,Nú er þetta svona … við héldum að starfsmaðurinn ræki umboðssöluna fyrir eigin reikning en ekki sem starfsmaður Vinnslustöðvarinnar!“.

Samt stóð var þetta skýrt í ársreikningum VSV. Þeir félagar höfðu sem sagt hvorki kynnt sér ársreikningana betur en raun ber vitni og þekktu heldur ekki til  reksturs félagsins að þessu leyti.

Í kjölfarið var rannsóknarbeiðnin dregin til baka. Eftir sat auðvitað áburðurinn um misferli en datt þeim í hug að biðjast afsökunar á mannorðsmeiðingunum, hvorki opinberlega né persónulega.

Nú kom enn einu sinni fram í stjórn VSV rakalaus þvættingur sem Magnús Helgi klifaði á í umboði Guðmundar og sást ekki fyrir í ákafanum því svo mjög lá á að sverta Vinnslustöðina og mannorð okkar sem stjórnum fyrirtækinu að hann fór að gera sölufyrirtækið GTM í Bretlandi tortryggilegt og nánast rægja það. GTM hefur keypt hefur fisk af mörgum fleiri íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum en Vinnslustöðinni, þar á meðal af HB Granda!

Í 10 ár hefur starfsfólk og eigendur Vinnslustöðvarinnar, aðrir en Guðmundur Kristjánsson, setið undir endalausum rógburði þeirra Magnúsar Helga Árnasonar. Nú er komið nóg og þótt fyrr hefði verið. Guðmundur Kristjánsson seldi hlut sinn í Vinnslustöðinni og hefur núna öðrum hnöppum að hneppa en í Vestmannaeyjum. Þeirra tími er liðinn í Eyjum og ég get ómögulega sagt að ég sakni þeirra!“

 

Deila: