Tekjutap fiskverkafólks orðið 818 milljónir

Deila:

„Í það minnsta 2400-2600 starfsmenn í fiskvinnslu hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna verkfalls sjómanna.  Tekjutap þessa hóps (lægri ráðstöfunartekjur) er metið á um 818 milljónir króna til 10. febrúar 2017. Hér er um að ræða beint tekjutap sem fallið hefur á hóp launþega sem ekki á möguleika á að fá hann bættan með nýtingu aflaheimildanna síðar nema ef til vill að mjög takmörkuðu leyti. Áætluð áhrif á greiðslur þessa hóps í skylduiðgjöld lífeyrissjóða eru metin á um 185 milljónir króna.“

Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins um þjóðhagsleg áhrif sjómannaverkfallsins. Samandregnar niðurstöður fara hér á eftir, en skýrsluna í heild má lesa með því að fara á slóðina neðst í fréttinni.

 • Að leggja mat á kostnað þjóðfélagsins af verkföllum er miklum vandkvæðum bundið, ekki síst við aðstæður sem þessar þar sem slegið er á frest að nýta auðlind sem að nokkru eða miklu leyti verður nýtt síðar og skilar þá tekjum síðar sem „leiðréttir“ að einhverju leyti fyrir þeim tekjumissi sem verkfallið veldur meðan á því stendur.
 • Greiningin á efnahagslegum áhrifum verkfallsins miðast við að aflaheimildir megi nýta síðar og að nú eigi sér fyrst og fremst stað tafir á nýtingu aflaheimilda. Því fer þó fjarri að allt tap og beinn kostnaður sem hlýst af töfum á nýtingu aflaheimilda megi vinna upp síðar alls staðar í flóknum virðiskeðjum sjávarafurða og í hagkerfinu öllu.
 • Það að aflaheimildir séu enn til staðar og að hægt sé að nýta þær og hafa af þeim sömu tekjur seinna á almennt síður við rök að styðjast eftir því sem lengra líður frá upphafi verkfallsins.
 • Ýmiskonar vaxtakostnaður fylgir því strax að slá verkum á frest (fresta nýtingu aflaheimilda) og vannýta framleiðsluþætti á meðan. Þessi vaxtakostnaður birtist víða og er sennilega í mörgum tilvikum óafturkræfur.
 • Verkfall sjómanna á sér stað „fremst“ í verðmætasköpun íslenska hagkerfisins. Efnahagsleg áhrif þess eru því mjög víðtæk og snerta fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur á Íslandi. Dragist starfsemi hans af einhverjum ástæðum saman, einkum í lengri tíma, hefur það keðjuverkandi áhrif í efnahagslífinu.
 • Áhrifa verkfallsins gætir með nokkuð misjöfnum hætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Stærð þeirra, eðli starfseminnar (hrein útgerð, hrein vinnsla, eða lóðrétt samþætt) og eðli framleiðslu þeirra, útgerðarmynstur, birgðastaða í upphafi verkfalls, skuldastaða, hlutfall fasts kostnaðar og ýmislegt fleira kemur hér til og veldur því að geta þeirra til að takast á við vandamál framleiðslustöðvunar til skamms og meðallangs tíma er mjög misjöfn. Stöðvunin á eftir að hafa margvísleg áhrif á framleiðsluna og líklega á verð síðar á árinu þegar framleiðsla hefst að nýju og þannig hafa áhrif á afkomu fyrirtækjanna í greininni á árinu.
 • Gögn benda til þess að framleiðsla og útflutningur ferskra bolfiskafurða hafi dregist saman um 40-55% frá því sem ætla mætti að hún hefði verið á tímabilinu 14. desember 2016 – 10. febrúar 2017. Fyrirliggjandi upplýsingar um aflabrögð, flutningamagn á sjó og með flugi og útflutning benda til þess að framleiðsluminnkun á ferskum bolfiskafurðum á tímabilinu hafi minnkað útflutningstekjur um 3.500 – 5.000 milljónir króna á tímabilinu. Þetta er að nokkru tap sem ekki verður bætt með nýtingu aflaheimilda síðar.
 • Standi verkfall fram á loðnuvertíðina og veiðar falla niður mun þjóðarbúið verða af tekjum sem líklega verða taldar í þúsundum milljóna króna.
 • Í ferskfiskframleiðslu hafa söluaðilar tilfinnanlega mestar áhyggjur af mörkuðum fyrir íslenskar afurðir og hættunni á að missa hluta þess markaðar annað eða að verð til þeirra lækki þar til lengri tíma. 5
 • Heildaráhrif verkfallsins á ráðstöfunartekjur sjómanna eru talin nema um 3.573 milljónum króna til 10. febrúar 2017. Áhrif á skylduiðgjöld til lífeyrissjóða sjómanna eru talin nema um 800 milljónum króna á tímabilinu. Hér er um að ræða tekjur sem að mestu eða öllu leyti kunna að skila sér við nýtingu aflaheimilda síðar.
 • Í það minnsta 2400-2600 starfsmenn í fiskvinnslu hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna verkfallsins. Tekjutap þessa hóps (lægri ráðstöfunartekjur) er metið á um 818 milljónir króna til 10. febrúar 2017. Hér er um að ræða beint tekjutap sem fallið hefur á hóp launþega sem ekki á möguleika á að fá hann bættan með nýtingu aflaheimildanna síðar nema ef til vill að mjög takmörkuðu leyti. Áætluð áhrif á greiðslur þessa hóps í skylduiðgjöld lífeyrissjóða eru metin á um 185 milljónir króna.
 • Atvinnuleysistryggingasjóður hefur þegar greitt um 312 milljónir króna í atvinnuleysisbætur og kauptryggingu til fiskvinnslufólks vegna verkfallsins. Er þá ótalinn áfallinn kostnaður vegna febrúar 2017. Greiðslur í atvinnuleysistryggingasjóð eru taldar hafa lækkað um 126 milljónir króna vegna verkfallsins, þar af um 24,5 milljónir króna vegna launa fiskverkafólks, en það eru greiðslur sem ólíklegt má telja að skili sér með nýtingu aflaheimilda síðar.
 • Eftir því sem verkfall dregst á langinn er líklegra að það hafi áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins 2017 í sjávarútvegi. Verði slík áhrif til þess að minnka hagnað sjávarútvegsfyrirtækja, og annarra fyrirtækja sem treysta á viðskipti við þau, mun það endurspeglast í greiddum tekjuskatti þeirra til ríkissjóðs og í útreikningum á veiðigjaldi (til lækkunar) fyrir fiskveiðiárið 2019/2020.
 • Gróflega áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna lækkaðra staðgreiðsluskatta og tryggingagjalds fiskverkafólks og sjómanna (hásetar, skipstjórnarmenn, vélstjórar) vegna verkfallsins á tímabilinu 14. desember 2016 – 10. febrúar 2017 er metið: Vegna launa fiskverkafólks (líklega að mestu óafturkræft): 392 milljónir króna. Vegna launa sjómanna (einhverju eða mestu leyti afturkræft): 2.165 milljónir króna. Alls: 2.557 milljónir króna.
 • Gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga vegna lækkaðra útsvarsgreiðslna fiskverkafólks og sjómanna (hásetar, skipstjórnarmenn, vélstjórar) vegna verkfallsins á tímabilinu 14. desember 2016 – 10. febrúar 2017 er metið: Vegna launa fiskverkafólks (líklega að mestu óafturkræft): 175 milljónir króna. Vegna launa sjómanna (einhverju eða mestu leyti afturkræft): 833 milljónir króna. Alls: 1.008 milljónir króna.
 • Heildaráhrif verkfallsins til 10. febrúar 2017 á tekjur hins opinbera (ríki og sveitarfélög) vegna minni launagreiðslna í sjávarútvegi nema því um 3.565 milljónum króna, þar af 2.998 milljónir króna vegna launa sjómanna (einhverju eða mestu leyti afturkræft) en 567 milljónum króna vegna launa fiskverkafólks (líklega að mestu óafturkræft).
 • Verðmætasköpun í fiskveiðum og vinnslu samkvæmt þjóðhagsreikningum var á bilinu 140 – 170 milljarðar króna árlega frá árinu 2008 (á föstu verðlagi) sem samsvarar um 380 – 460 milljónum króna á dag að meðaltali. Að viðbættum óbeinum 6 efnahagslegum áhrifum má leiða getum að því að verðmætasköpun sjávarútvegs og tengdra greina hafi numið 350 – 425 milljörðum króna árlega frá 2008 sem samsvarar 960 – 1160 milljónum króna á dag að meðaltali. Ekki er þó hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins

https://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/2017/170210-Mat-a-thjodhagslegum-kostnadi-verkfalls-sjomanna—SKYRSLA.pdf

 

Deila: