Karl féll í sjóinn á Arnarstapa: „Hann bjargaði lífi mínu“

Deila:

Þétt setnar hafnir á Vesturlandi, þar sem strandveiðimenn á vertíð, fjarri heimahögum, sofa í bátum sínum, vekja spurningar um brunavarnir og önnur öryggismál. Lífsbjörg varð á Arnarstapa þann 9. maí þegar eldri maður féll í sjóinn þegar hann var að klifra á milli báta á leið í land; fall sem rekja má beint til mikils fjölda báta og bágborinnar hafnaraðstöðu.

Litlu mátti muna að illa færi í höfninni á Arnarstapa þann 9. maí síðastliðinn þegar séra Karl V. Matthíasson, féll í sjóinn þegar hann var að klöngrast á milli báta eftir róður. Karl er 71 árs og rær með félaga sínum, Birki Atlasyni, á bátnum Straumur SH-61. Sjómenn þurfa stundum yfir strandveiðitímann að klifra yfir 12 til 15 báta til að komast á sjó á morgnanna, eða upp á bryggju eftir róður. Svo margir bátar eru bundnir saman. Mörg dæmi eru um að sjómenn sofi í bátunum sínum á Arnarstapa og í fleiri höfnum. Slökkviliðsstjóri segir ljóst að afar illa gæti farið ef eldur kviknaði í bát í langri röð plastbáta.

Karl segist í samtali við Auðlindina hafa verið að fikra sig á milli báta – frá einu stefni yfir til annars – þegar hann rann til og féll í sjóinn. „Ég var búinn að vera á sjó í 12 tíma og var dauðþreyttur. Einbeitingin var ekki mikil en ég var búinn að klifra yfir sex báta. Ég var ekki með neitt til að halda mér í þegar mér skrikaði fótur og datt á bólakaf í sjóinn,“ segir hann.

Svo heppilega vildi til að Birkir Atlason, félagi Karls, var skammt frá, kominn yfir aðeins fleiri báta á leið sinni að bryggjunni. Hann varð sem betur fer var við fallið. „Hann er yngri en ég og liprari. Hann gat klifrað til baka og teygt sig niður til mín. Hann hélt í mig þar til aðrir menn komu til aðstoðar og hjálpuðu mér upp.

Karli er ljóst að hann hefði aldrei getað synt út fyrir sex eða sjö báta til að komast aftur fyrir einhvern þeirra, þar sem björgunarstigar á bátum eru staðsettir. Eftir á að hyggja hefði hann ef til vill getað komist að grjótgarðinum en hann segir að í þessum óvæntu aðstæðum hafi sú hugsun ekki náð til hans. „Fremstu bátarnir í þessari röð eru nálægt grjótgarðinum – ég hefði ef til vill getað troðið marvaðan þangað, ef mér hefði gefist ráðrúm til að hugsa málið.“ Hann segir að það sé enginn hægðarleikur fyrir sjómenn að fara yfir svona marga báta. Þessir bátar eru misstórir og erfitt að fara á milli þeirra,“ útskýrir Karl, sem hefur samhliða preststörfum og með hléum, stundað sjómennsku í áratugi. Karli varð ekki meint að volkinu, þó hurð hafi skollið nærri hælum. Hann segir að illa hafi getað farið ef hann hefði verið einn á sjó, eða aðrir ekki séð til hans. Karl segir ljóst að hann hefði getað drukknað í höfninni og þakkar félaga sínum – og guði lífsbjörgina. „Hann bjargaði lífi mínu,“ segir Karl um Birki félaga sinn.

Kerfið beinir bátunum á A-svæði

Höfnin á Arnarstapa.

Strandveiðar hófust þann 2. maí síðastliðinn. Fyrirkomulag veiðanna hefur leitt til þess að bátum hefur fjölgað ört á Vesturlandi undanfarin ár, á kostnað annarra svæða. Nú er svo komið að erfitt er að fá pláss í höfnum á Vesturlandi, sérstaklega þar sem stutt er á gjöful mið. Ríflega helmingur strandveiðibáta á Íslandi eru á A-svæði, sem nær frá Snæfellsnesi austur að Húnaflóa. Landinu er skipt upp í fjögur svæði en bátarnir veiða úr einum og sama pottinum sem í fyrra kláraðist þegar sex vikur voru eftir af áætluðu tímabili til strandveiða. Þar sem besta veiðin er snemmsumars á Vesturlandi, en síðsumars fyrir austan, hafa menn gripið til þess ráðs að færa sig á vestur á bóginn. Þannig flúðu fimm bátar frá Raufarhöfn þegar strandveiðar hófust í maí. Þrír þeirra fengu pláss í Grundarfirði.

Aflaheimildum í strandveiðum var áður skipt á milli svæða en potturinn var sameinaður árið 2018 í nafni öryggis – til að koma í veg fyrir svokallaðar ólympískar veiðar. Ráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um að svæðaskipting verði tekin upp á nýjan leik – en það hefur ekki verið afgreitt þegar þetta er skrifað. Þessi mikla samþjöppun báta á eitt svæði hefur þegar skapað slysahættu.

Kjaftfullt á Arnarstapa

Arnarstapi er vinsæl höfn fyrir strandveiðibáta enda eru gjöful fiskimið skammt undan. Í höfninni eru, þegar þetta er skrifað, um 40 bátar, að sögn hafnarstjóra. Bátarnir eru bundnir saman í þrjár lengjur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Heimamaður sem þekkir vel til aðstæðna á Arnarstapa, en vill ekki láta nafns síns getið, segir í samtali við Auðlindina að aðstæður á Arnarstapa séu í raun „tifandi tímasprengja“. Hann megi vart hugsa til aðstæðna sem skapast geta ef eldur kviknar í bát í höfninni, þar sem sofandi sjómenn safna kröftum í káetum.

Umhugsunarvert

„Það eru engar reglur sem gilda um þetta og það er umhugsunarvert,“ segir Matthías Páll Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Snæfellsbæ. Hafnir sveitarfélagsins, og raunar á Vesturlandi öllu, eru margar þétt skipaðar smábátum, sérstaklega yfir strandveiðitímann. Þegar 12 til 15 bátar eru bundnir saman þurfa þeir sem yst eru að klifra yfir þá alla, til að komast til og frá bát sínum. Mörg dæmi eru um að á Arnarstapa og víðar sofi menn næturlangt um borð í bátum sínum. Slökkviliðsstjórinn segir að illa gæti farið ef eldur kviknaði í bát í höfninni á Arnarstapa. Eldurinn ætti greiða leið á milli báta.

Skemmst er að minnast að einn maður lést og tveir særðust illa þegar eldur kom upp í skipi í Njarðvíkurhöfn þann 25. apríl síðastliðinn. Fimm dögum síðar eyðilagðist bátur í eldsvoða í Sandgerðishöfn. Engan sakaði þar. Þessir bátar voru stakir. Atvikin vekja spurningar um öryggi í þeim höfnum landsins á vestanverðu landinu, þar sem bátar víða af á landinu hópast saman.

Illa gæti farið í bruna

Matthías slökkviliðsstjóri segir aðspurður að næsti slökkvibíll við Arnarstapa sé í Ólafsvík. Hann segir að ef upp kæmi eldur í trillu á Arnarstapa væri það mjög alvarlegt mál. Kvoða er að hans sögn notuð til að slökkva í plastbátum. „Þetta getur orðið stórhættulegt ef það kviknar í bát í miðri lengjunni,“ segir hann. Í brunavarnaáætlun Snæfellsbæjar segir að slökkvibíll sé 29 mínútur að aka að Arnarstapa, þegar hann leggur af stað úr hlaði í Ólafsvík. Það gefur því auga leið að útkallstíminn yrði eitthvað lengri og að á þeim tíma gæti mikið tjón hafa skapast. Auðlindin fékk ábendingu um að aðgengi að vatni væri verulega ábótavant við höfnina á Arnarstapa. Aðspurður svarar Matthías því til að vatn sé til taks við höfnina og auðvelt sé jafnframt að komast í sjó. „Þetta getur hins vegar verið fljótt að breiðast út þegar plastbátur brennur,“ segir hann.

Matthías segir að slökkviliðið sé eftirlitsaðili með fyrirtækjum og stofnunum í sveitarfélaginu. Hann segist ekki vita nákvæmlega hvernig ábyrgð sé háttað með báta í höfnum en segir umhugsunarvert að engar reglur gildi um að menn sofi í bátum sínum í þétt setnum höfnum.

Hverjum og einum frjálst

Björn Arnarson er hafnarstjóri í Snæfellsbæ. Hann segir að brunavarnir séu til fyrirmyndar í flestum höfnum sveitarfélagsins, svo sem í Ólafsvík og Rifi en segir að þær standi til bóta á Arnarstapa. Björn hafnar því og bendir á að nýlega sé búið að endurnýja vatnsveituna á Arnarstapa, sem áður hafi verið í ólagi. „Ég veit ekki alveg hvað skal segja. Við getum ekki bannað mönnum að sofa um borð í bátunum sínum. Það er hverjum og einum frjálst,“ segir hann en bætir við að flestir sjómenn í sveitarfélaginu hafi aðsetur á landi, í sumarbústöðum, heimahúsum eða jafnvel hjólhýsum. Björn viðurkennir þó að dæmi séu um að menn sofi í bátunum sínum á Arnarstapa.

Aðspurður segir hann að hætta á eldsvoða sé ekki meiri á strandveiðitímanum en á öðrum árstíma. Hann viðurkennir hins vegar að sumar hafnirnar séu þétt setnar, en ekki allar. „Fyrir mörgum árum voru til dæmis um 100 trillur í Ólafsvíkurhöfn. Núna eru þær á milli 50 og 60. En þetta er alveg sjónarmið og er umhugsunarvert. Hafnaryfirvöld geta hins vegar ekki bannað mönnum að sofa í bátunum.“

Mjög erfiðar aðstæður

Fyrrverandi slökkviliðsstjóri segir í samtali við Auðlindina að mjög erfitt sé að slökkva eld sem náð hefur útbreiðslu í plastbát. Froða sé eina leiðin en stundum sé ekki hægt að ná tökum á eldinum nema hreinlega sökkva bátunum. Hann segir að ef eldur myndi kvikna í langri röð plastbáta gæti eldurinn auðveldlega læst sig í nærliggjandi báta á 40 mínútum, sem er nærri því að vera lágmarksútkallstími slökkviliðs að næturlagi frá Ólafsvík, miðað við að aksturinn taki 29 mínútur. Hann segir aðspurður að slíkar aðstæður yrðu mjög erfiðar viðureignar. Hann bendir á að froða myndist ekki þegar sjó er blandað saman við sápu. Hreint vatn þyrfti til þess, svo aðgengi að vatni skiptir lykilmáli.

Ekki boðlegar aðstæður

Séra Karl segir að hafnaraðstæður á Arnarstapa séu ekki boðlegar fyrir þennan fjölda báta. Í öðrum höfnum séu bátar við flotbryggjur og hafi jafnvel eigin bás, þar sem hægt er að ganga að bátnum beggja vegna. Hann furðar sig reyndar á því hvernig á því standi að bátar eins og hans, sem hafi heimahöfn á Arnarstapa, greiði sömu hafnargjöld og bátar í betri höfnum í sveitarfélaginu eða annars staðar á landinu.

Karl segir blasa við að smíða þurfi fljótandi pall með grjótgarðinum á Arnarstapa, svo hægt sé að ganga að bátunum. Þrengslin geri það að verkum að allir þurfi að fara út á sama tíma og sá tími sé klukkan sex á morgnanna. Í þessu felist mikil óþægindi og hætta, eins og hann þekkir á eigin skinni.

Hann staðfestir að hann viti til þess að sofið sé í sumum bátunum. Hann er ekki í neinum vafa að afar illa gæti farið ef eldur kviknar í einum bátnum. „Þetta yrði bara eldhaf á svipstundu, ef það kviknar þarna eldur.“

Deila: