Kallaður í land því vinnsluna vantaði fisk

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun með 84 tonn að lokinni stuttri veiðiferð. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Uppistaða aflans var þorskur. Haft er eftir Steinþóri Hálfdánarsyni skipstjóra að aflinn hafi fengist á Hvalbakshallinu. „Þarna var suðvestanátt og sólskin sem er besta veður í heimi. Við vorum kallaðir inn vegna þess að það vantaði fisk í vinnsluna. Það verður farið út aftur nánast strax eftir löndun,“ er haft eftir Steinþóri.

Vestmannaey VE landaði fullfermi í heimahöfn í Vestmannaeyjum á miðvikudag. Skipstjóri í veiðiferðinni var Egill Guðni Guðnason. Egill segir að aflinn hafi verið mest þorskur og langa. „Við fengum þetta á Péturseynni. Aflabrögð voru góð og veðrið var í lagi. Það voru 12 – 15 metrar lengst af en sjólaust. Kvótinn hjá okkur er býsna langt kominn en það virðist vera mikill fiskur á ferðinni. Það er helst að ufsinn láti lítið á sér kræla. Annaðhvort er lítið af honum eða hann heldur sig á einhverjum nýjum slóðum,“ segir Egill Guðni.

Deila: