Strandveiðimenn mótmæltu á Austurvelli

Deila:

Vel var mætt á mótmæli sem strandveiðimenn efndu til á Austurvelli um helgina, vegna ótímabærrar stöðvunar strandveiða.

Strandveiðifélag Íslands stóð fyrir mótmælunum en að baki er stysta strandveiðivertíð frá upphafi strandveiða.

Sjómenn gengu fylktu liði frá Hörpu á hádegi á laugardag yfir á Austurvöll þar sem við tók dagskrá. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ávarpaði samkomuna og lýsti í ræðu sinni yfir stuðningi við smábátasjómenn. „Ég er eng­in and­stæðing­ur kvóta­kerf­is­ins ég held að kvóta­kerfið sé góð leið til að stjórna fisk­veiðum við Ísland, þó að fram­kvæmd­in á því sé mjög baga­leg eins og stend­ur. Ég held að það verði að vanda sig bet­ur í því hvernig menn deila þess­um kvóta, ekki bara fyr­ir ein­stök fé­lög held­ur líka lands­hluta,“ sagði Kári meðal annars.

KK flutti nokkur lög og Kristján Torfi og tillukarlakórinn einnig.

Að lokum tendruðu strandveiðimenn blys og bjuggu þannig til mikið sjónarspil á Austurvelli.

Mótmælin fóru friðsamlega fram en strandveiðimenn vilja að ráðherra tryggi nægar aflaheimildir til veiðanna í þá fjóra mánuði sem þær eiga að standa yfir. Þeir hafa bent ráðherra sjávarútvegsmála á aflaheimildir sem hægt væri að færa til innan félagslega kerfisins; aflaheimildir eins og byggðakvóti sem ekki hefur verið að nýtast.

 

Deila: