Sáttur við kvótasetningu á makríl

Deila:

„Mér list eiginlega bæði vel og illa á makrílfrumvarpið. Það eru ýmsir kostir í því eins og að fara að klára þetta endanlega. Loka máli sem er búið að vera hangandi yfir okkur eftir að þessi dómur féll í vetur. Ég fagna því þessu verði komið í fastar skorður. Á móti kemur, eins og þetta hljómar núna, þá felst í þessu mikil skerðing, sérstaklega fyrir þá sem hafa stutta veiðireynslu. Ég er alls ekki sáttur við það og vonast til að það verði lagað í meðförum þingsins. Þetta er ekki alveg sanngjarnt gagnvart okkur á smábátunum.“

Byrjaði 2008

Unnsteinn er sáttur við kvótasegingu á makríl, en vill breytt viðmiðunarár frá því sem er í frumvarpinu.

Þetta segir Unnsteinn Þráinsson, eigandi og skipstjóri á Sigga Bessa SF frá Hornafirði, einn frumkvöðla makrílveða á smábátum hérlendis. „Ég byrjaði 2008 með litlum árangri en þá þurfti maður að fara alveg 50 mílur út í haf til að sækja hann.  Við erum í raun lítið sem ekkert með í veiðunum fyrr en 2012, sem er fyrsta árið sem við náðum einhverjum árangri. Það sem á undan kemur er bara til að draga niður alla meðalveiðina hjá okkur. Verði það lagað er ég að öllu leyti sáttur við þetta.“

Það hefur gengið mjög vel hjá Unnsteini á makrílnum síðustu árin og reyndar flestum sem hafa sinnt veiðunum af alvöru. „Það er hörku vinna við þessar veiðar og ætli það séu ekki 20 til 30 bátar sem hafa náð ágætis árangri. Það hafa fullt af mönnum komið og prófað makrílveiðarnar og margir horfið frá þeim aftur. Verðið á makrílnum skiptir miklu máli. Það hefur verið lágt og þá er engin afkoma af þessu, nema að veiða alveg óhemju mikið. Það hefur ekki öllum tekist.

Bæta upp lágt verð með mikilli veiði

Ég var með um 200 tonn í fyrra og það á að geta verið alveg ágætis afkoma af því ef verðin eru eðlileg. Verðið féll þegar ákveðið var að fylgja vesturveldunum í deilunni við Rússa og setja á þá viðskiptabann og þeir svöruðu í sömu mynt. Þá var ekki hægt að selja makríl til Rússlands og við höfum ekkert náð okkur á strik í verðum eftir það. Þetta kom illa við okkur og áhuginn almennt í smábátaflotanum á þessum veiðum minnkaði í kjölfarið. Verðið féll um meira en helming og þá þurfti að veiða svo ofboðslega mikið til útgerðin væri raunhæf. Vegna þess þynntist enn meira úr hlutfall okkar í veiðireynslunni, því uppsjávarskipin héldu áfram veiðum og juku sína hlutdeild. Í mínum flokki voru það bara þeir hörðustu sem héldu áfram, höfðu trú á því að þetta væri hægt. Í kjölfarið var kominn kvóti á veiðarnar samkvæmt reglugerð. Veiði var þá mjög góð og við leigðum til okkar kvóta og margir sem höfðu litlar heimildir fóru ekkert af stað. Við náðum afkomu með  því að veiða nógu mikið.“

Landað úr Sigga Bessa í Keflavík.

Unnsteinn segir að makrílverðið í fyrra hafi verið í kringum 70 til 80 krónur á kílóið. Það sé ekkert í líkingu við uppgripin 2012 þegar bátarnir voru að fá 120 til 130 krónur fyrir hann. Þá hafi verið hellings peningur í þessu. En svo snúist þetta allt um það hvernig veiðin sé, hve mikið þurfi að leggja í kostnað við að sækja hann. „Startið er dýrt og sérstaklega fyrir þá sem voru að byrja snemma eins og ég og þurfti að finna þetta allt upp sjálfur. Það er alltaf auðveldara fyrir þá sem eftir koma. Í upphafi fórum við til Noregs til að læra af þeim, hvernig þeir gerðu þetta. Svo þurfti að finna tæki í bátinn, adsik og fleira. Það var dálítið mikið lærdómsferli í þessu í upphafi og byrjunarkostnaður. Við smíðuðum allt sem til þurfti, rennur og fleira hérna heima í skúr. Ég hafði trú á því að þetta væri hægt og gafst ekki upp á þessum fyrstu árum. Það var erfitt, sérstaklega á þessum fyrstu árum, að láta þetta ganga upp fjárhagslega, að réttlæta þá ákvörðun að vera að standa í þessu.“

Sex vikna vertíð

Vertíðirnar hafa verið að styttast. Menn hafa verið að byrja í byrjun ágúst og verið að veiðum út september. „Eftir að makríllinn var settur í kvóta með reglugerð, hef ég byrjað eftir verslunarmannahelgi. Þá er þægilegra að eiga við hann og makríllinn orðinn feitari og betri. Nú er maður afslappaðri en áður, þegar allir voru að keppast um einhvern pott og voru því að byrja alltof snemma. Þegar menn eru í svona keppnisveiði, eru menn frekar að hugsa um magn en gæði. Ætla að bæta það upp með mikilli veiði, helst áður en hinir ná því. Það slaknaði mjög á þeirri hugsun, þegar kvótakerfið kom.“

Mmakrílbátar að veiðum við Keflavík.

Unnsteinn hefur verið á makrílveiðum í um það bil sex vikur á ári síðustu árin. „Það er alveg nóg, ef það er veiði á annað borð. Makríllinn er í bestum holdum á haustin og þá fæst hærra verð fyrir hann. Okkur liggur svo sem ekkert á að taka hann fyrr, taka þetta bara með áhlaupi, þegar hann er orðinn feitur og fallegur. Allt miðast þetta þó við að hann skili sér inn á veiðislóðina okkar, en í því efni er ekkert öruggt. Ég er búinn að vera við Reykjanesið síðan 2011 og  allt byggist þetta á veiðin sé nálægt vinnslunni þar sem hann er unninn. Það borgar sig ekki að vera að keyra hann þvert yfir landið til að vinna hann. Ég er búinn að vera í viðskiptum við Fiskkaup með makrílinn í mörg ár. Þar er flott vinnsla og makríll lausfrystur þar. Allar vinnslurnar eru þarna á suðvesturhorninu,“ segir Unnsteinn.

Er á línu frá hausti og fram á vetur

En það er meira en en ein sex vikna makrílvertíð á árinu. Hinn hluta ársins stundar Unnstein línuveiðar frá Hornafirði. „Ég er á línu frá lokum makrílvertíðar og fram í febrúar. Ég hef svo verið að taka ufsa á handfæri á milli, en í fyrra varð verðfall á honum, svo það stóð ekki undir sér að veiða hann. Ég veit ekki hvort það verður einhver glóra að fara á hann í sumar. Ég hef alltaf reynt að vera búinn með kvótann minn í febrúar, þegar vertíðin fer á fullt og verðin lækka. Þá finnst mér gott að vera búinn með mínar heimildir. Maður reynir að gera sem mest verðmæti úr kvótanum og hæsta verðið fæst fyrir fiskinn á haustin og fram á vetur.“

Strandveiðikerfið ekki skemmtilegt

Unnsteinn hefur ekki verið á strandveiðum í mörg ár. „Ég keypti mér reyndar strandveiðibát þegar kerfið var sett á. Ég var þá nýbúinn að kaupa kvóta og það átti að skerða mig þá strax á fyrsta ári. Því keypti ég bátinn til að setja undir kvótalekann eins og ég orðaði það. Ég gafst nú fljótt upp á því. Það er ekki kerfi til að byggja á og er leiðinlegt að mörgu leyti. Það er svo lítið sem má veiða á hverjum degi. Það tekur alltaf tíma að finna fisk á morgnana þegar maður fer út og yfirleitt er það þannig að þegar maður er búinn að finna fisk, klárast skammturinn strax og maður þurfti að fara í land úr góðri veiði. Svo þurfti maður að byrja næsta dag alveg upp á nýtt, byrja að leita að fiskinum og þegar maður fann hann var skammturinn kominn um leið. Mér finnst þetta ekki skemmtilegt kerfi, enda vil ég ekki sjá neitt annað en kvótakerfi, þar sem maður fær fyrirfram að vita hvað maður getur veitt og getur þá gert sem mest úr því eftir því hvernig stendur á verði og vindum. Ég held að kvótakerfið hafi skilað okkur ágætlega. Ég hef staðið í þessu í mörg ár og verið að koma mér fyrir í því kerfi,“ segir Unnsteinn Þráinsson.

Lífgar upp á lífið í höfnunum

Þó strandveiðin henti Unnsteini ekki segir hann að hún lífgi verulega upp á lífið í höfnunum úti á landi. Að því leyti sé strandveiðin af hinu góða fyrir þá sem þar vilja vera og hafa vinnu við það í fjóra mánuði á ári. „Ég held að plúsarnir séu fleiri en mínusarnir í þessu kerfi. Það má svo sem þakka Jóni Bjarnasyni fyrir þá ákvörðun á sínum tíma. Samfélagið verður skemmtilegra með þessu. Ég er sannfærður um það. Og þó reglugerð hans um makrílveiðina hafi verið dæmd ólögleg, hafi hún haft margt gott í för með sér. Þannig var fleirum hleypt á veiðarnar. Útgerð eins og mín hefði ekki náð að blómstra án reglugerðar hans og sama á við um fleiri sem komu á eftir. Ég held líka að á þessum tíma hafi það verið vilji stjórnvalda að hleypa fleirum að og byggja upp vinnslur í kringum makrílinn eins á Suðurnesjum.“
Viðtalið birtist fyrst í nýútkomnum Ægi, 3. tbl 2019. Myndir og texti Hjörtur Gíslason.

 

 

 

Deila: