Langar að skoða kóralrifið mikla við Ástralíu

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er Grindvíkingurinn Heimir Örn Hafsteinsson. Hann er hvort tveggja í senn yfirstýrimaður og skipstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og grásleppukarl á Trylli GK í einn mánuð á ári. Hann byrjaði í saltfiski 10 ára og á fiskitrolli 15 ára og hefur síðan verið sjómaður fyrir utan námsárin.

Nafn?

Heimir Örn Hafsteinsson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur og uppalinn Grindvíkingur.

Fjölskylduhagir?

Ég á þrjú börn: Kristján Ara, Nóa og Míu Ágúst Heimisbörn.

Hvar starfar þú núna?

Ég er yfirstýrimaður og afleysingaskipstjóri á Rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og svo er ég grásleppukarl á Trylli GK einn mánuð á ári.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði 10 ára í saltfiski á sumrin og fór svo á sjóinn á fiskitroll 15 ára í sumarafleysingu og hef verið sjómaður síðan fyrir utan skólagöngu.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Þar sem ég starfa á rannsóknaskipi núna er það fjölbreytnin. Það er engin leiðangur eins á árinu. Við drögum flottroll, botntroll, átutroll, tökum allskonar sýni, leggjum og tökum upp allskonar baujur, teljum hvali og ýmislegt annað. Síðast en ekki síst er það vísinda- og rannsóknarfólkið sem siglir með okkur, sem gaman er að vinna með.

En það erfiðasta?

Ég man nú ekki eftir neinu erfiðu. Ég finn ekkert fyrir löngum leiðöngrum, það er samt alltaf gaman að koma heim,  þó það sé eftir nokkurra klukkutíma grásleppuróður.  

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ætli það sé ekki þegar ég var að sigla á Árna norðarlega við austur-Grænland og lenti í mjórri straumá. Sitthvoru megin við hana var lítill straumur, skipið var farið að drifta hátt í 60* þegar ég fór loksins út úr henni á fullu ferðinni.  Ég hefði ekki viljað lenda í henni í brælu.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt marga eftirminnilega og góða vinnufélaga á mínum 35 ára sjómannsferli, en ég ætla að sega pabbi, Hafsteinn Sæmundsson. Við höfum marga ölduna sopið saman í gegnum okkar sameiginlega sjómannsferil, sem ekki sér fyrir endann á þrátt fyrir að hann sé orðin 83 ára.

Tvisvar verið nokkuð hætt komnir á Trylli en sloppið á síðustu stundu, stundum fiskað vel og stundum ekki upp á hund, en alltaf er kallinn jafn glaður þó ég sé að pirra mig á fiskileysinu og hann segir alltaf „Vertu rólegur fiskurinn kemur.“

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin eru misjöfn frá ári til árs. Nú eru það hjólreiðar og útivera. Nú í sumar stefni ég á að fara á reiðhjólinu mínu með allan útileguútbúnað að hjóla um landið.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það er einfalt; djúpsteiktur fiskur og franskar.

Hvert færir þú í draumfríið?

Mig langar að skoða kóralrifið mikla við Ástralíu þegar börnin verða orðin nógu stór til að kafa þar.    

 

Deila: