Mikil aukning í þorsk- og ýsuveiðum við Færeyjar

Deila:

Landanir í gegnum færeysku löndunarskipanina jukust um 5% á fyrsta ársfjórðungi. Verðmæti landaðs afla jókst mun meira eða um 10%. Þorsk- og ýsuafli jókst verulega en mikill samdráttur var í ufsalöndunum. Uppsjávarfiskur og afli frystitogara er ekki inni í þessum tölum.

Alls var landað rétt tæpum 19.000 tonn á þessu tímabili. Þorskafli jókst um þriðjung frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra og var hann nú tæp 6.500 tonn. Af ýsu bárust 2.340 tonn á land, en það er gífurleg aukning frá því í fyrra er tæplega 1.500 tonnum var landað. Ufsaaflinn nú varð ríflega 5.300 tonn, sem er samdráttur um 2.170 tonn eða 29%. Heildarafli af botnfiski nú varð 15.800 tonn. Þetta er í fyrsta sinni í mjög langan tíma sem meira veiðist af þorski en ufsa.

1.250 tonn af flatfiski fóru í gegnum löndunarskipanina. Það er vöxtur um 430 tonn eða 52%. Þar munar mestu um skötusel, sem flokkaður er með flatfiskum. Aflinn nú varð 670 tonn, sem er meira en þreföldun frá sama tíma í fyrra. Alls var landað 470 tonnum af grálúðu, sem er 50 tonnum minna en í fyrra og er það samdráttur um 9%.

Hlutfallslegur vöxtur í verðmæti umfram magn liggur að mestu leyti í hagstæðari tegundasamsetningu, það er meira af þorski, en en minna af ódýrari tegundum eins og ufsa.

Deila: