Álit vegna umhverfismatsskýrslu Samherja

Deila:

Skipulagsstofnun hefur skilað áliti við umhverfismatsskýrslu Samherja Fiskeldis ehf. varðandi uppbyggingu landeldisstöðvar félagsins í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Þetta kemur fram á vef Samherja. Álitið er þar sagður grundvöllur fyrir frekari leyfisveitingum tengdum framkvæmdinni og rekstri eldisstöðvarinnar, sem byggð verður upp í þremur áföngum. Verkefnið hefur fengið vinnuheitið Eldisgarður.

Á vefnum segir að í fyrsta áfanga sé ráðgert að framleiðslugetan verði 10 þúsund tonn af laxi á ári. Að lokinni uppbyggingu annars áfanga verði framleiðslugetan 20 þúsund tonn og 40 þúsund tonn eftir þriðja og síðasta áfanga.

Sjótöku verði einnig áfangaskipt en í fullbyggðri stöð áætlar félagið að nota að hámarki 30.000 l/s af jarðsjó, um 50 l/sek af ferskvatni og um 3.200 l/s af ylsjó frá Reykjanesvirkjun sem í dag rennur að hluta ónýttur til sjávar. HS Orka afhendir félaginu þessa 50l/sek sem notaðir verða af ferskvatni.

Áréttað er að allt annað vatn sem notað verður við fiskeldið er saltur sjór sem dælt verður úr fjörukambinum neðan við Eldisgarð.

Skipulagsstofnun telur veigamestu umhverfisáhrifin varða grunnvatn og jarðmyndanir. Mat stofnunarinnar á mögulegum umhverfisáhrifum er sambærilegt við niðurstöður umhverfismatsskýrslu Samherja fiskeldis, að því er fram kemur á vefnum. Þar segir að í álitinu sé tekið undir mikilvægi þess að áfangaskipta uppbyggingu Eldisgarðsins eins og Samherji fiskeldi leggur upp með til að tryggja sem nákvæmastar upplýsingar um umhverfisáhrif á hverjum tíma.

Nánar má lesa um málið á vef Samherja.

Deila: