Gullver í slipp

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í liðinni viku með 106 tonna afla, mest ýsu og karfa. Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að togarinn sé nú kominn í hálfs mánaðar stopp og fari ekki til veiða á ný fyrr en 9. ágúst. Í stoppinu verður að sögn dyttað að ýmsu í skipinu en það mun síðan fara í slipp í lok ágústmánaðar. Fram kemur að vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafi legið niðri frá því í byrjun þessa mánaðar og hefjist ekki á ný fyrr en 14. ágúst. Starfsfólk hússins hafi því fengið ágætt sumarfrí.

Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver, segir að síðasti túr skipsins hafi gengið vel að því undanskildu að erfitt hafi verið að ná karfanum. „Við veiddum allvíða og vorum í Hornafjarðardýpinu, Berufjarðarálnum, á Papagrunni og Stokksnesgrunni og almennt fiskaðist vel. Það var hins vegar ströggl að fá karfa, hvorki gullkarfi né djúpkarfi virðist halda sig í miklum mæli hér austurfrá,“ segir Þórhallur í samtali við vefsíðuna.

Deila: