Þrálátur orðrómur um strandveiðar

Deila:

Óhætt er að segja að þrálátur orðrómur sé á kreiki um að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra muni bæta aflaheimildum við strandveiðar í ágústmánuði. Veiðar voru stöðvaðar þann 11. júlí síðastliðinn þegar 10 þúsund tonn aflaheimildum hefur verið náð. Ekkert hefur bent til þess að þeirri niðurstöðu verði haggað, þrátt fyrir mótmæli strandveiðimanna sem keyptu í vor veiðileyfi fyrir vertíð sem átti að standa út ágústmánuð.

Sá kvittur er á kreiki að þingmaður VG hafi í þröngum hópi látið þau orð falla að ekki væru öll kurl komin til grafar. Ráðherra myndi freista þess að bæta við dögum í ágústmánuði til að rétta hlut strandveiðimanna, ekki síst á austanverðu landinu. Í eyru blaðamanns voru 8 dagar nefndir.

Ólíklegt verður að teljast að hér sé um annað en orðróm að ræða, enda hefur ráðherra sagt að ekki sé frekari aflaheimildum til strandveiða að dreifa. Margir bátar eru komnir til annarra veiða, hafa verið fluttir á milli landshorna til heimahafnar eða standa jafnvel á þurru landi. Ljóst má hins vegar vera að strandveiðimenn eru afar ósáttir við vertíðina þetta sumarið, eins og það síðasta. Þeir hafa bent á aflaheimdir innan félagslega kerfisins sem að óbreyttu verða ekki nýttar á þessu fiskveiðiári.

Sé eitthvað hæft í þessum orðrómi, sem Auðlindin hefur heyrt úr nokkrum áttum, ræðst það væntanlega í dag, síðasta dag júlímánaðar. Menn ættu þó að óbreyttu að fara sér hægt í að taka ís í kvöld.

Deila: