Makríllinn fannst í Smugunni

Deila:

Makrílveiðar skipa Síldarvinnslunnar og Samherja hafa gengið vel í Smugunni undanfarna daga. Frá því er greint á vef Síldarvinnslunnar að makrílveiðin í íslensku lögsögunni hafi dottið niður og fiskurinn ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Skipin hafi þá haldið í Smugu og veiðar hafi þar gengið afar vel.

„Síldarvinnsluskipin og Samherjaskipin, sem eru í veiðisamstarfi, fengu góð hol og kom Beitir NK til Neskaupstaðar í gær með 1.850 tonn og Margrét EA hélt til Egersund í Noregi með 1.750 tonn. Nú er Vilhelm Þorsteinsson EA á landleið með tæplega 1.500 tonn þannig að Barði NK og Börkur NK eru einu skipin í samstarfinu sem nú eru að veiðum,” segir í fréttinni.

Í fréttinni er rætt við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti. „Skipin voru að fá allt upp í 400 tonn í holi. Skipin í okkar samstarfi voru að veiðum í syðri hluta Smugunnar, um 350 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni. Þarna veiðist miklu smærri fiskur en sá sem veiddist í íslensku lögsögunni. Fiskurinn sem þarna fæst er mikið 370 – 400 grömm en fiskurinn sem veiddist í okkar lögsögu var gjarnan 500 – 600 grömm. Mér finnst vertíðin hafa gengið býsna vel til þessa og það er afar mikilvægt hve mikið hefur veiðst í íslenskri lögsögu. Svo bíður norsk – íslenska síldin handan við hornið og það verður spennandi að fá að glíma við hana,“ er haft eftir Tómasi.

Deila: