Erlent fiskverkafólk heiðrað á fiskideginum

Deila:

Erlent fiskverkafólk var heiðrað sérstaklega á Fiskideginum mikla sem haldinn var hátíðlegur á Dalvík um helgina. Hefð er fyrir því að heiðra þá sem hafa með jákvæðum hætti haft áhrif á atvinnusögu Dalvíkurbyggðar og íslenskan sjávarútveg.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að fiskvinnslufólk af erlendum uppruna hafi farið að vera áberandi á Dalvík upp úr aldamótum. Fiskidagurinn fagni fjölbreytileikanum og því fólki sem hefur komið um langan veg til að taka þátt í atvinnulífi og samfélagi Dalvíkurbyggðar. Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, afhenti viðukenningu vegna þessa og naut við það aðstoðar Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands.

Vegna heimsfaraldursins var nokkuð um liðið síðan Fiskidagurinn var síðast haldinn hátíðlegur. Vegna ársins 2022 var Hartmann Kristjánsson heiðraður fyrir áratuga sjómennsku á ýmsum skipum og bátum sem gerðir hafa verið út frá Davlík.

Sigurður Tryggvi Konráðsson var heiðraður vegna ársins 2021 en hann er stofnandi Sólrúnar á Árskógsströnd ásamt föður sínum og bróður.

Loks var Vigfús Jóhannesson skipstjóri heiðraður, vegna ársins 2020, fyrir farsælan feril.

 

Deila: