Skaginn 3X lokar á Ísafirði og segir upp 27

Deila:

Skag­inn 3X hef­ur sagt upp 27 starfs­mönn­um fyr­ir­tæk­is­ins á Ísaf­irði. Ákveðið hefur verið að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins í bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hingað til hefur fyrirtækið haft starfsstöð bæði á Akranesi og á Ísafirði. Fram kemur í tilkynningunni að þungum rekstri fyrirtækisins sé um að kenna. Skaginn3X er hátækniframleiðandi á kæli-, frysti- og vinnslukerfum fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað með áherslu á sjávarútveg.

Alþjóðlega fyrirtækið Baader keypti árið 2020 60% hlut í Skaganum 3X. Þá stóð til að auka framleiðslu og stórefla rannsóknir og þróunarstarf á báðum stöðum. Í fyrra keypti Baader svo hin 40% sem eftir stóðu.

Fram kemur í tilkynningunni að ákvörðunin sé þungbær en byggi á umfangsmikilli endurskipulagningu.

Haft er eftir Sigsteini Grétarssyni forstjóra að reksturinn hafi verið mjög þungur síðustu misseri. Félagið hafi þurft að fara í viðamikið endurmat á skuldbindingum og kröfum í kjölfar eigendaskipta. Ólga hafi auk þess verið á mörkuðum, bæði vegna COVID og stríðsátaka. „Við höf­um velt við hverj­um steini þar sem þær rekstr­ar- og markaðslegu for­send­ur sem lagt var upp með við eig­enda­skipt­in hafa ekki gengið eft­ir. Niðurstaðan varð sú að samþætta alla fram­leiðslu á Akra­nesi,“ er haft eft­ir Sig­steini í til­kynn­ing­unni.

Deila: