Eldislax upp um allar ár á Norðvesturlandi

Deila:

Landssambandi veiðifélaga hafa borist tilkynningar um eldislax í að minnsta kosti átta laxveiðiám á Norðvesturlandi undanfarna daga. Gunnar Örn Petersen framkvæmdastjóri sambandsins segir að sjókvíaeldi verði banabiti íslenskra laxastofna ef stjórnvöld grípa ekki í taumana. Þetta kemur fram í fréttum RÚV.

Þar segir að tilkynningar um eldislaxa hafi verið að hellast inn. Um er að ræða MIðfjarðará, Vatnsdalsá, Svartá, Víðidalsá og Hópið. Svo sé laxinn einnig í Djúpinu, það er Laugardalsá. Eldislax hefur líka fundist í Laxá í Dölum og Hvolsá og Staðarhólsá. Í fréttinni segir að svo virðist sem eldislax hafi einnig gengið í Langadalsá.

Haft er eftir Gunnari að fiskarnir séu af svipaðri stærð og þeir sem sluppu úr sjókvínni í Patreksfirði fyrir skemmstu. Einnig geti verið að um sé að ræða lax sem slapp úr sjókví í Arnarfirði 2021. Þetta sé umhverfisslysið sem varað hafi verið við um árabil.

„Nú þegar hafa allar verstu afleiðingar sjókvíaeldis sem landssamband veiðifélaga hefur varað við frá upphafi og önnur náttúruverndarsamtök hafa raungerst hér á landi. Hvort sem við erum að tala um sjúkdómana eða gríðarleg afföll eða lús yfir öllum mörkum, og núna virðist vera að gerast hérna fyrir framan augun á okkur að erfðamengunin er að raungerast. Og erfðablöndun er óafturkræfur skaði sem engar mótvægisaðgerðir koma í veg fyrir og við getum ekkert snúið til baka. Það er því ljóst að sjókvíaeldi verður banabiti íslenskra laxastofna ef stjórnvöld grípa ekki í taumana,“ er haft eftir honum á RÚV.

Deila: