„Hefur verið óhemju mikil veiði“

Deila:

„Við erum að veiða um 1.500 tonn af ári,“ segir Oddur Orri Brynjarsson, skipstjóri á dragnótarbátnum Steinunni SH í Ólafsvík. Oddur tók við af pabba sínum, Brynjari Kristmundssyni, fyrir tveimur árum en hann er fjórði ættliður skipstjóra í fjölskyldunni. Brynjar og bræður hans áttu Steinunni SH að fullu um langt árabil þar til FISK Seafood ehf. keypti 60% hlut árið 2021.
Oddur, sem stendur á fertugu, þekkir hvern krók og kima í bátnum enda hefur hann verið þar í áhöfn með hléum frá 13 ára aldri. Hann hefur að sögn verið samfellt á Steinunni frá árinu 2008 eða
2009.

Dragnótaraflinn nær nýjum hæðum
Oddur segir að frá því hann tók við hafi veiðin farið vaxandi. Hann er sannfærður um að meira sé af fiski í sjónum en áður. „Það hefur verið óhemju mikil veiði. Við rérum til dæmis ekki nema 92 róðra á síðasta almanaksári. Þetta hefur bara verið að aukast og það hefur aldrei verið svona mikil veiði í dragnót,“ segir hann.

Þetta er raunar skoðun skipstjóra víða um land, óháð veiðarfærum eða stærð bátanna. Oddur segir aðspurður að fiskveiðistjórnunarkerfið sé í sjálfu sér gott en er gagnrýninn á þær rannsóknaraðferðir og útreikninga sem notaðar eru. Hann segir að við blasi að Íslendingar ættu að veiða meiri fisk, ástandið í sjónum sé með þeim hætti.

„Við ættum að prófa að setja á jafnstöðuafla í fimm ár, kannski 300 þúsund tonn, og sjá hvað gerist. Það er miklu meira af fiski í sjónum en verið hefur.“

Ítarlega er rætt við Odd Orra í nýjasta tölublaði Ægis.

Deila: