Boðar breytingar á strandveiðum

Deila:

„Ég mun sem ráðherra sjávarútvegsmála hvergi hvika frá því að fylgja vísindalegri ráðgjöf um nýtingu fiskistofna og að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti enda er það forsenda þess að aflaheimildir geti aukist í framtíðinni. Það er ekki síður ásetningur minn að skapa skilyrði fyrir því að markmið laga um stjórn fiskveiða náist, að efla atvinnu og byggð í landinu. Strandveiðar skipta þar máli og því mikilvægt að standa
áfram vörð um þær. Að því mun ég huga í heildarlögum um sjávarútveg sem lagt verður fram í vetur. Ég hef staðið með strandveiðum og hyggst gera það áfram.”

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í niðurlagi í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, sem fram fór á dögunum. LS hefur nú birt ræðuna.

Hún sagði meðal annars í ræðunni að talsverð nýliðun hefði orðið í strandveiðum frá stofnun þeirra. Það hlutverk þessara veiða hefði þannig gengið upp að mörgu leyti. Mikilvægt sé að halda áfram að þróa og treysta strandveiða og festa þær í sessi með því að lögfesta skýr markmið og meta árangur veiðanna. „En lög eru mannanna verk og því tel ég mikilvægt að við drögum lærdóm af reynslunni. Það er ekki gott fyrir framtíð strandveiða að þær verði í óbreyttri mynd enn annað sumar,” sagði hún. Á orðum hennar má skilja að breytingar verði gerðar á strandveiðum fyrir næsta sumar.

Ræðuna í heild má sjá hér.

Deila: