Greiðir ekki laun í kvennaverkfalli

Deila:

Samherji mun ekki greiða laun þeirra sem fjarverandi verða vinnu vegna Kvennaverkfallsins 24. október. Þetta kemur fram í dreifibréfi frá Samherja til starfsfólks. Heimildin greinir frá þessu. Samherji hagnaðist um 14,3 milljarða króna vegna reksturs síðasta árs og 17,8 milljarða árið á undan.

Í bréfinu segir: „Vinnsla hjá Samherja verður með hefðbundnum hætti þennan dag og þær konur sem vilja leggja niður störf eru hvattar til að láta sinn yfirmann vita. Ekki verða greidd laun vegna fjarveru þennan dag. Hafi konur áhuga á að fara á skipulagða dagskrá þennan dag biðjum við þær um að gera það í samráði við sinn yfirmann. Sá tími verður ekki dreginn af launum. Á Akureyri er fundur á Ráðhústorgi kl. 11:00.“

Í fréttinni er haft eftir formanni stéttafélagsins Einingar-iðju að þessi orðsending sýni afstöðu fyrirtækisins til kvenna yfirleitt.

Deila: