„Við vorum ekkert sérstaklega heppnir í þessum túr”

Deila:

Barði NK landaði 1.280 tonnum af kolmunna á Seyðisfirði sl. föstudag og Börkur NK landaði 2.200 tonnum daginn eftir. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar er rætt við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Barða. Hann segir að þeir hafi verið fimm daga á veiðum og að býsna rólegt hafi verið framan af. Þeir veiddu fyrst syðst í Rósargarðinum og hann ber að dagamunur hafi verið á aflanum. „Þetta var býsna blettótt og við vorum ekkert sérstaklega heppnir í þessum túr. Það gekk til dæmis betur hjá Berki,” segir skipstjórinn.

Fram kemur að stærsta hollið hafi verið 300 tonn en minnsta hollið 130 tonn. „Það skiptir miklu máli að veiða kolmunnann þarna því þetta er innan íslenskrar lögsögu og því eiga menn að vera þolinmóðir þó aflinn sé ekki alltaf upp á það besta. Það þarf líka að hafa það í huga að oft hefur besta veiðin þarna verið í nóvembermánuði. Við munum halda áfram á kolmunnanum en það er spáð bölvaðri brælu á þriðjudagsnótt og við munum ekki fara út fyrr en eftir hana,“ segir Runólfur.

Deila: