70% þjóðarinnar andvíg sjókvíaeldi

Deila:

Tæplega 70% þátttakenda í skoðanakönnun Maskínu segist vera andvígir eldi á laxi í sjó. Hlutfallið var 69%. Aðeins 10% eru hlynntir því. Könnunin var gerð í nóvember.

Hratt hefur fjarað undan vinsældum iðnaðarins. Hlutfall andvígra var 43% í apríl 2022 og 57% í mars 2023. Reikna má með að slysasleppingar á Vestfjörðum spili þarna rullu.

„Þó svo að niðurstöðurnar sýni aukna andstöðu við bæði laxeldi í sjó og á landi er mikill munur á viðhorfi fólks eftir því hvort spurt er um eldi í sjókvíum eða á landi en 69% aðspurðra sögðust andvíg laxeldi í sjókvíum og aðeins 10% þeirra hlynnt slíku eldi. Þetta er talsverður viðsnúningur, en á aðeins rúmum tveimur árum hefur þeim sem segjast andvíg laxeldi í sjókvíum fjölgað um 23 prósentustig,” segir í frétt á vef Maskínu.

Aðeins 26% aðspurðra eru andvígir eldi á laxi á landi. Það er nærri tvöföldun frá því í ágúst 2021, þegar hlutfallið var 14%.

Karlar eru mun hlynntari laxeldi, bæði í sjó og á landi en konur, en yfir 60% karla eru hlynnt því á landi á meðan innan við þriðjungur kvenna er á þeirri skoðun. Þá er eru 15% karla hlynnt laxeldi í sjókvíum en aðeins 5% kvenna.

Kjósendur Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins eru hlynntari laxeldi í kvíum en kjósendur annarra flokka. Munurinn er minni varðandi laxeldi á landi en kjósendur Flokks fólksins og Pírata eru síst hlynntir laxeldi á landi.

Deila: