Vestmannaey og Bergur í jólafrí

Deila:

Bergur VE landaði í Vestmannaeyjum á mánudag og Vestmannaey VE í gær. Þar með er síðustu veiðiferð beggja skipa fyrir jól lokið og jólafrí framundan hjá áhöfnum þeirra. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að Bergur hafi landað 62 tonnum, mest þorski en Vestmannaeyjar 60 tonnum þar sem ýsa var uppistaðan.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að í túrnum hafi verið norðaustan fræsingur. „Við byrjuðum út af Þorlákshöfn og þar fengum við aðeins af ýsu, en færðum okkur síðan austur á Ingólfshöfða og kláruðum þar. Nú er framundan pása fram yfir áramót og það eru allir glaðir og sælir með það,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi fiskað fyrir austan. „Við byrjuðum á Glettingi en færðum okkur svo suður á Gerpisflak og í Reyðarfjarðardýpið. Þarna vorum við í blíðuveðri allan tímann en það var hins vegar bræla fyrir sunnan okkur. Nú tekur við góð pása en það verður ekki farið út á ný fyrr en á nýju ári,“ segir Birgir Þór.

Deila: