Glimrandi vertíð og metafli

Deila:

Aldrei hafa skip útgerðarfélagsins Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum borið jafn mikinn afla að landi í einum mánuði og í aprílmánuði sl. Alls lönduðu Vestmannaey VE og Bergey VE 1.538 tonnum af fiski í mánuðinum en hvort skip var aðeins 17 daga á sjó. Fyrra aflamet skipa félagsins í einum mánuði var í mars 2009 en þá voru skipin reyndar þrjú að tölu. Aflaverðmæti skipanna hefur heldur aldrei verið meira en í aprílmánuði sl. en það reyndist vera 338 milljónir króna. Fyrra met aflaverðmætis eins mánaðar er frá maímánuði 2010. Frá þess er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar

Þegar rýnt er í tölur frá útgerðarfélaginu kemur í ljós að skip þess hafa veitt mest allra skipa af ýsu það sem af er kvótaárinu. Ýsuafli þeirra er 2.134 tonn og nemur það 13% af ýsuveiði landsmanna. Þá kemur einnig í ljós að aflaverðmæti Vestmannaeyjar VE frá upphafi mun sennilega ná 10 milljarða markinu í júnímánuði nk. en Vestmannaey kom ný til landsins árið 2007.

Heildarafli skipanna tveggja frá áramótum er 4.409 tonn og er þetta mesti afli sem skip félagsins hafa borið á land á tímabilinu janúar-apríl. Aflaverðmæti frá áramótum nálgast einn milljarð króna.

Arnar Richardsson rekstrarstjóri segir að útgerðin hafi gengið einstaklega vel að undanförnu og starfsmenn félagsins séu afar ánægðir með árangurinn. „Það er alveg ljóst að við getum ekki kvartað,“ segir Arnar.

Jón Valgeirsson skipstjóri á Bergey segir að vertíðin hafi verið einstaklega góð. „Þetta hefur verið glimrandi vertíð og metafli. Aprílmánuður var einstaklega góður, blússandi veiði allan mánuðinn. Veðrið lék líka við okkur og það hefur alltaf sitt að segja,“ segir Jón.

Þegar þetta er skrifað er Vestmannaey að fara í slipp í Vestmannaeyjum þar sem hefðbundnu viðhaldi verður sinnt. Bergey er hins vegar að veiðum á Breiðdalsgrunni.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

 

Deila: