Enn leitað að loðnu

Deila:

Gert er ráð fyrir að loðnu verði leitað nú í byrjun febrúarmánaðar og bæði hafrannsóknaskip og veiðiskip taki þátt í leitinni. Leitin sem fram fór í janúar olli vonbrigðum.

Frá þessu er grein á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að ís hafi hamlað leititnni í janúar. Ætli megi að loðnan haldi sig undir ísnum. Þá hafi það vakið athygli að engin loðna virtist vera gengin suður fyrir Langanes en samkvæmt upplýsingum frá gömlum skipstjórum þarf það ekki að koma á óvart. „Skipstjóranir segja að á fyrri tíð hafi loðna stundum ekki gengið suður fyrir Langanes fyrr en komið var fram yfir miðjan febrúar. Sannleikurinn er sá að loðnan er brellin og erfitt að reikna út atferli hennar.”

Fram kemur að ávallt ríki spenna þegar loðnu er leitað í aðdraganda vertíðar. Loðnuveiðarnar skipti fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög miklu máli. Loðnuvertíðin sé annatími í loðnubæjunum og þá verði mikil verðmæti til á skömmum tíma.

Fram kemur enn frem að skip frá Síldarvinnslunni hafi tekið þátt í loðnuveiðum frá árinu 1966 og loðna var fyrst unnin í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins árið 1968.

„Fyrir Austfirði er það afar mikilvægt að væntanleg loðnuleit skili árangri og gefinn verði út loðnukvóti. Menn eru minnugir svonefndra loðnuleysisára þegar veiðar voru afar takmarkaðar eða engar. Menn muna til dæmis eftir árunum 1981 – 1982, 1990 – 1991 og ekki síst árunum 2019 og 2020.”

Deila: