Enn berst kolmuni til Síldarvinnslunnar
Enn berst kolmunni til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði var byrjað að landa úr Barða NK í gærmorgun en hann kom með rúm 2.000 tonn. Þá beið grænlenska skipið Polar Amaroq löndunar á Seyðisfirði með 1.700 tonn. Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með rúmlega 2.000 tonn og er gert var ráð fyrir að löndun úr honum hefðist í gærkvöld. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Þar segir að lögð sé áhersla á að landa úr skipunum jafnóðum og hráefnið sé unnið því betra er að geyma það kælt um borð en í hráefnistönkum verksmiðjanna.
„Með þeim afla sem bíður löndunar hafa verksmiðjurnar tvær tekið á móti um 33.000 tonnum af kolmunna það sem af er árinu. Almennt er hráefnið sem skipin koma með gott og hentar vel til vinnslu að sögn Eggerts Ólafs Einarssonar, verksmiðjustjóra á Seyðisfirði, og Hafþórs Eiríkssonar, verksmiðjustjóra í Neskaupstað. Ef loðnan heldur áfram að vera í felum er gert ráð fyrir að skipin haldi til kolmunnaveiða vestur af Írlandi. Þar hefur að undanförnu verið hörkuveiði,” segir í fréttinni.