Hólar: Margt nýtt og spennandi í kortunum

Deila:

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum er í miklum vexti þessi misserin. Á Hólum er boðið upp á 90 eininga nám í fiskeldi sem kennt er á einu ári og er skólinn sá eini á Íslandi með sérhæfða námsbraut í fiskeldi á háskólastigi. Námskeiðin eru kennd í fjarnámi, eitt í einu, hvert um sig með staðlotu þar sem nemendur koma saman, ýmist á Hólum eða í fiskeldisfyrirtækjum og glíma við verkefni, að mestu leyti verkleg, og efla tengsl sín á milli. Náminu lýkur með verknámi á sumarönn hjá fiskeldisfyrirtækjum. „Aðsókn í þetta nám hefur margfaldastá undanförnum misserum enda er um að ræða stutt og hagnýtt nám með ríka tengingu við atvinnulífið en samfélagið og vinnumarkaðurinn kalla eftir slíku námsframboði í síauknum mæli,“ segir Ástríður Einarsdóttir verkefnastjóri í fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.

Störfum mun fjölga á næstu árum

Auknar vinsældir námsins segir hún haldast í hendur við mikinn vöxt í greininni en fleira komi til. Þar megi meðal annars nefna ríka áherslu á samstarf og samtal milli skólans og iðnaðarins og bætt kynningarstarf. Nefnir hún að störfum í fiskeldisiðnaði muni samkvæmt spám fjölga um 800 á næstu árum og því alveg ljóst að þörfin fyrir menntun í geiranum er gífurleg.

„Nemendur okkar koma flestir úr iðnaðinum. Þau sinna náminu meðfram störfum sínum í fiskeldisfyrirtækjum. Þetta hefur gefist afar vel og fyrirtækin hafa verið sveigjanleg og búið svo um að starfsfólk geti sinnt námi með vinnu. Enda eru fjölmörg dæmi þess að fyrirtækin hvetji sitt starfsfólk eindregið til að sækja námið hjá okkur. En við höfum einnig haft nemendur sem hafa enga fyrri tengingu við fiskeldi
og það er alltaf skemmtilegt. Einnig er nokkuð um að fólk sem tengist iðnaðinum á annan hátt en með hefðbundnum störfum í fiskeldisstöðvunum sýni náminu áhuga. Það getur verið t.d. fólk í afleiddum störfum, fólk sem þjónustar iðnaðinn á ýmsan hátt eða fólk í stjórnunarstöðum sem hefur jafnvel annars konar háskólanám að baki en óskar eftir að bæta við sig sérhæfðari þekkingu á fiskeldi,“ segir Ástríður.

Greinin birtist í nýju tölublaði Sóknarfæris. Greiðina í heild og blaðið allt má lesa hér.

Deila: