Varasamar veiðar við Írland

Deila:

Börkur NK hefur verið á kolmunaveiðum vestur af Írlandi. Frá Austfjörðum eru 750 mílur á miðin. Á vef Síldarvinnslunnar er rætt við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. Hann segir að veiðarnar þarna séu stórvarasamar, svo mikið sé af fiski.

„Við fengum aflann í 10 holum og það var alltaf stutt dregið eða frá 30 mínútum og upp í tvo tíma. Aflinn í hverju holi var frá 570 tonnum og niður í 400 tonn. Við reyndum að fá um 400 tonn í hverju holi en það gekk ekki alltaf. Við lentum í tjóni vegna þess að of mikið reyndi á veiðarfærin. Þarna eru allt aðrar aðstæður en til dæmis í færeysku lögsögunni. Í færeysku lögsögunni er miklu lengur dregið, þar er oft híft tvisvar á dag en svo gerist það einnig að dregið er í 20 – 30 tíma. Á þessu svæði vestur af Írlandi er einfaldlega meiri fiskur á ferðinni og hægt að fá góðan afla á skömmum tíma, jafnvel svo góðan að veiðarfærunum er ofgert,“ segir Hjörvar.

Fram kemur að Beitir NK sé einnig á kolmunnaveiðum vestur af Írlandi.

Deila: