Tæknivædd laxavinnsla Drimlu í Bolungarvík fer vel af stað

Deila:

Í lok nóvember síðastliðins var fyrsta sérhæfða laxavinnslan sem byggð er hér á landi tekin í notkun í Bolungarvík og ber nafnið Drimla eftir samnefndri tjörn sem var fyrr á tíð þar í bæ. Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish er eigandi Drimlu en fullbúin kostaði verksmiðjan rúma fimm milljarða króna. Drimla annast slátrun og vinnslu eldisfisks fyrir Arctic Fish og slátrar einnig fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell oger þannig strax orðin lykilfyrirtæki í eldisstarfseminni á Vestfjörðum. Starfsmenn eru 34 og er Kristján Rúnar Kristjánsson framkvæmdastjóri en hann starfaði áður um árabil við fiskeldi og í laxaverksmiðjum í Noregi og er því gjörkunnugur þessari starfsemi. Hann segir að þetta tækifæri hafi verið of spennandi til að láta það framhjá sér fara.

Freistandi tækifæri til að koma heim

„Ég var ekkert á heimleið frá Noregi en það var mjög freistandi að fá að taka þátt í að móta þessa vinnslu frá grunni,“ segir Kristján Rúnar en eiginkona hans, Lára Ingimarsdóttir, er einnig með mikla reynslu í fiskeldisstarfseminni og er gæðastjóri hjá Drimlu. Kristján byrjaði í vinnu við laxeldið í Noregi árið 2009 og þá hjá Grieg Seafood sem verksmiðjustjóri í fjögur ár í verskmiðju í Alta en færði sig þá til annars stórfyrirtækis í greininni, Cermaq í Finnmörku, þar sem hann var í eitt ár framleiðslustjóri við hlið Barkar Árnasonar sem þar var verksmiðjustjóri. Þaðan fór Kristján til Völku og leiddi uppbyggingu fyrirtækisins á markaði fyrir tækjabúnað í hvítfiski og laxi í Noregi en með kaupum Marel á Völku færðist hann yfir til Marel og starfaði fyrir fyrirtækið þar til fjölskyldan flutti til Bolungarvíkur árið 2023.

Drimla vel heppnuð laxaverksmiðja

Kristján Rúnar segir að þrátt fyrir að Drimla sé ekki stór laxavinnsla á norskan mælikvarða þá sé hún engu að síður vel búin og að sumu leyti framar en þær norsku. „Mér fannst mjög spennandi að fá það tækifæri að byggja Drimlu upp frá grunni, koma að skipulagi á starfseminni, ráða inn fólk og hefjast handa. Allir sem að þessu verkefni hafa komið hafa lyft Grettistaki,“ segir Kristján.
„Á íslenskan mælikvarða erum við örugglega flottasta laxaverksmiðjan og tæknilegasta en það eru til fullkomnari verksmiðjur í Noregi í þessum geira. Við erum ekki að finna upp hjólið hjá Drimlu en mér finnst að hér hafi verið staðið vel að vali á búnaði, birgum og hönnun verksmiðjunnar. Það sem við erum helst að gera með öðrum hætti en Norðmenn er að við notum ofurkælingu á hráefninu sem engin af nýju verksmiðjunum í Noregi byggir á. Þetta atriði er lykilatriði fyrir okkur sem erum 2-3 dögum lengra frá afurðamörkuðum en norsku verksmiðjurnar og þurfum því að gera allt sem við getum til að tryggja kælingu og geymsluþol afurðanna. Og miðað við viðtökur og viðbrögð kaupenda þá er okkur að takast mjög vel að framleiða vöru í háum gæðum,“ segir Kristján.

Nánar er rætt við Kristján í nýtútkomnu tölublaði Sóknarfæris.

Deila: