Rýr marsmánuður

Deila:

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 23,4 milljörðum króna í mars samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í mánuðinum sem Hagstofan birti í vikunni. Þetta er fremur rýr marsmánuður miðað við undanfarin ár og í raun hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið minni í mars í 6 ár. Útflutningsverðmæti sjávarafurða voru á hinn bóginn óvenju mikil í sama mánuði í fyrra og mælist því verulegur samdráttur á milli ára í mars, eða sem nemur 33%. Þar sem gengi krónunnar var rétt tæplega 1% hærra nú í mars en í sama mánuði í fyrra, er samdrátturinn mældur í erlendri mynt á svipuðu róli, eða rúm 32%.

Þetta kemur fram í greiningu Radarsins á útflutningsverðmætum sjávarafurða í mars. Fram kemur að í þessum tölum séu áhrif loðnubrests augljós en að útflutningsverðmæti allra afurðaflokka hafi dregist saman á milli ára í mars. „Í ofangreindum samdrætti munar mest um heilfrystan fisk og fiskimjöl. Útflutningsverðmæti heilfrysts fisks nam rétt um 1,3 milljarði króna nú í mars samanborið við 5,1 milljarð í sama mánuði í fyrra. Það jafngildir 75% samdrætti á milli ára á föstu gengi.”

Greinina í heild má lesa hér.

Deila: