Sérlausnir og búnaður fyrir fiskeldið

Deila:

„Styrkur okkar í framleiðslu á búnaði og lausnum fyrir fiskeldið liggur meðal annars í þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum innan fyrirtækisins í smíði vinnslubúnaðar í skip og landvinnslur. Við þekkjum vel að hanna og smíða sérlausnir í búnaði og vinnslukerfum fyrir viðskiptavini og þetta er það bakland sem við á fiskvinnslusviði nýtum okkur, sækjum þannig til annarra deilda fyrirtækisins, hvort heldur það er smíði eða þjónusta. Þetta tel ég skipta miklu máli fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Ágúst Guðnason, sviðsstjóri fiskeldissviðs hjá Slippnum Akureyri ehf.

Sérsmíði og neðansjávardrónar

Slippurinn Akureyri ehf. er eitt þekktasta skipaþjónustufyrirtæki landsins en á síðari árum hefur það einnig sótt fram í smíði fiskvinnslubúnaðar og í þjónustu við fiskeldi í sjó og á landi. Nefna má hönnun og smíði á pöllum og brúm í eldisstöðvum, lagningu veitukerfa stöðvanna ásamt uppsetningu á þvottakerfum frá Lagafors. Þá er Slippurinn Akureyri með sölu- og þjónustuumboð hér á landi fyrir fjarstýrða kanadíska neðansjávardróna frá Deep Trekker og eru slíkir nú þegar í notkun í eftirliti í sjókvíaeldi hér á landi en drónarnir nýtast einnig vel í t.d. höfnum, við skipaskoðun og margt fleira. Loks er að nefna að Slippurinn Akureyri er með umboð fyrir tromlufiltera frá Hydrotech sem notaðir eru til að sía vatn í fiskeldi, bæði vatn sem kemur inn í eldið en einnig er hægt að sía vatn sem frá eldinu kemur.

Sjálfvirkur þvottaróbót fyrir eldisker

„Okkar þjónusta er í dag lang mest í kringum landeldi og þar eru mjög fjölbreytt verkefni. Þetta eru til dæmis smíðaverkefni en líka þjónustuverkefni á borð við þvott, viðhald og málun. Þar komum við einmitt að verkþætti sem við höfum sérþekkingu í þar sem við höfum bæði öflugt starfsfólk og góð efni til að mála við mjög krefjandi aðstæður. Við getum aðlagað þvottakerfin okkar mismunandi aðstæðum í eldisstöðvunum og á því sviði erum við einmitt í þróunarverkefni þessar vikurnar þar sem við erum að prófa nýjan sjálfvirkan þvottaróbót fyrir eldisker. Þetta er búnaður sem lofar góðu og er bæði vinnusparandi fyrir eldisfyrirtækin, bætir þvottagæðin á kerveggjunum og líka sóttvarnir við þrif,“ segir Ágúst en þvottaróbótinn verður settur upp í fyrstu stöðinni síðar í vetur.

Þjónusta bæði stóru og litlu eldisfyrirtækin

Ágúst segist horfa til allra sviða eldisins með þjónustu fiskeldissviðs Slippsins, bæði til landeldis og sjóeldis, stórra fyrirtækja sem smárra í greininni. „Verkefnin eru víða og fjölbreytt. Það eru stór verkefni í farvatninu í landeldinu og enginn vafi að landeldið á eftir að stækka mjög mikið í náinni framtíð. En hvað varðar þjónustu fiskeldissviðsins okkar þá horfum við líka til smærri fyrirtækjanna í landeldi sem mörg hver hafa starfað mjög lengi. Það er víða verið að gera frábæra hluti í litlu eldisfyrirtækjunum og mér finnst einkennandi að alls staðar er fólk mjög áhugasamt um nýjungar, nýjar útfærslur og tækifæri. Þetta eru ekki síður áhugaverð verkefni fyrir okkur en þau stóru,“ segir Ágúst.

Á myndinni er neðansjávardróninn frá Trekker, sem vaktar veggi eldiskvínna.

Greinin birtist fyrst í Sóknarfæri.

Deila: