Fyrsta síldin komin á land

Deila:

Fyrsta síldin á nýbyrjaðri vertíð barst til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um nýliðna helgi. Frá þessu greinir á vef Síldarvinnslunnar. Hákon EA kom þá með 700 tonn að landi en í kjölfarið mætti Börkur NK með 480 tonn.

Rætt er við Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóra í fiskiðjuverinu í frétt Síldarvinnslunnar.

Hann sagði að þetta væri fínasta síld, bæði falleg og feit. „Meðalþyngdin er um 370 grömm og það er um 20% fita í henni sem er mjög gott. Núna framleiðum við samflök eða flapsa og það eru sjö flökunarvélar í gangi en síðan heilfrystum við einnig. Síðar munum við svo hefja framleiðslu á roðlausum flökum. Hér er unnið á þrískiptum vöktum og það eru 24 á hverri vakt auk iðnaðarmanna. Starfsfólkið er hörkuduglegt og meirihluti þess hefur góða reynslu af störfunum. Við eigum von á góðri síldarvertíð og hráefnið í upphafi vertíðar lofar mjög góðu,” segir Karl Róbert.

Áfram er síldin unnin af fullum krafti í fiskiðjuverinu. Hákon EA kom í gærmorgun með 740 tonn og Beitir NK hóf veiðar í gær með góðum árangri.

Deila: