Íslensk repjuolía í Þinganesi ÁR
„Þetta er táknræn athöfn en sýnir að vegurinn frá ræktun til nýtingar repjunnar sem orkugjafa er hvorki langur né óyfirstíganlegur fyrir okkur sem eigum jörðina Flatey og gerum út skip,“ segir Hjalti Þór Vignisson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar hjá Skinney-Þinganesi á Höfn í Hornafirði, í samtali við Morgunblaðið í dag. Skip fyrirtækisins, Þinganes, fór á humarveiðar í gær með dísilolíu sem blönduð hafði verið að 5% hluta með hreinni repjuolíu frá ræktendum á Suðurlandi. Er það í fyrsta skipti sem íslensk repjuolía er sett á íslenskt fiskiskip.
Forsvarsmenn Skinneyjar- Þinganess hafa á undanförnum mánuðum verið í samskiptum við Samgöngustofu vegna hugmynda um ræktun og nýtingu repju sem eldsneyti á skip félagsins. Hófust þau með því að Sandra Rán Ásgrímsdóttir sem er frá Höfn og starfar sem sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti hvatti forsvarsmenn fyrirtækisins til að kanna möguleika á repjurækt í Flatey með orkuskipti í sjávarútvegi í huga. Jón Bernódusson, skipaverkfræðingur á Samgöngustofu, hefur verið þeim innan handar við þá athugun en hann hefur lengi unnið að tilraunum með repjurækt í þeirri von að hægt væri að nota repjuolíu sem eldsneyti á skipaflota landsmanna.
Skinney-Þinganes hefur byggt upp myndarlegt kúabú í Flatey á Mýrum. Þar er fjós fyrir 240 kýr auk uppeldisaðstöðu fyrir kvígur og annarrar aðstöðu. Hjalti segir að nú sé hafin kornrækt í Flatey með markvissari hætti en áður hafi verið. Möguleiki sé að nýta hluta landsins fyrir repjurækt.
„Jörðin er stór og og býr yfir miklum tækifærum. Við höfum þá sýn að orkuskipti í sjávarútvegi eru mikilvæg til framtíðar horft en ætlum að gefa okkur tíma til að þróa verkefnið. Við erum ekki upptekin af því að vinna stóra sigra á morgun eða hinn,“ segir Hjalti. Hann segir nauðsynlegt að ná tökum á ræktuninni áður en farið verður að huga að umbreytingu fræjanna í eldsneyti og nýtingu á skipin.
Mikið hrat fellur til við vinnslu repjuolíu. Það er úrvals fóður fyrir kýrnar.
Á skipið og í eldhúsið
Jón Bernódusson og bændurnir á Teigi 3 í Fljótshlíð og Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum fóru austur á Höfn í gær með 420 lítra af hreinni repjuolíu sem bændurnir lögðu til í þessa tilraun. Jón er að ljúka verkefni sem gengur út á að sjá hvernig gengur að nota hreina repjuolíu til íblöndunar dísilolíu á stórar skipavélar. Hann segir að þetta hafi gengið vel.
400 lítrar fóru í eldsneytistanka skipsins en 20 lítrar voru skildir eftir til notkunar við eldamennsku um borð í skipinu og mötuneyti útgerðarfélagsins.
Ámyndinni er Þinganesið að landa í Grindavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.