Rannsóknir á áhrifum veiðigjalds skortir

Deila:

„Það er því erfitt að sjá haldbær rök fyrir því að álagning eða hækkun sérstaks veiðigjalds muni ekki lækka landsframleiðslu og hagvöxt og þá jafnframt tekjur hins opinbera er fram í sækir. Spurningin er því fyrst og fremst um hversu sterk þessi áhrif á þjóðarframleiðslu séu og hvenær hækkun opinberra tekna muni snúast upp í lækkun. Hvað þetta snertir skortir rannsóknir,“ segja þeir dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus og dr. Birgir Þór Runólfsson dósent í nýrri hagrænni greiningu á veiðigjaldi, landsframleiðslu og tekjum hins opinbera. Skýrslan var unnin fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fjölþætt áhrif veiðigjaldsins
Skýrsluhöfundar segja skatta á atvinnuvegi hafa margvísleg áhrif á þróun efnahagslífs og samfélags.
„Veiðigjaldið er sérskattur sem lækkar arðsemi og þar með endurgjald til framleiðsluþátta í sjávarútvegi miðað við endurgjald þeirra í öðrum atvinnuvegum sem ekki bera slíka sérskatta. Því beinir það framleiðsluþáttunum frá sjávarútvegi til annarra atvinnuvega þar sem arðsemi er lægri. Afleiðingin er þjóðhagslega óhagkvæmari ráðstöfun framleiðsluþátta samfélagsins og þar með minni þjóðarframleiðsla. Fjárfesting verður einnig nánast örugglega minni því arðsemi fjárfestinga lækkar auk þess sem minni þjóðarframleiðsla þýðir að minna fé er til ráðstöfunar til fjárfestinga. Hagvöxtur verður því einnig minni. Þannig ná brenglandi áhrif sérskatta eins og veiðigjalds langt út fyrir viðkomandi atvinnuveg og fara jafnframt vaxandi yfir tíma.“

 

Veikari samkeppnisstaða

Bent er á í skýrslunni að erlendur sjávarúrtvegur og helstu samkeppnisaðilar Íslands á fiskmörkuðum heimsins séu yfirleitt ekki sérskattaðir umfram aðra atvinnuvegi. Nær sér að taka um að þessir aðilar njóti opinbers stuðnings.

„Sérstakt veiðigjald á íslenskan sjávarútveg veikir því greinina í hinni alþjóðlegu samkeppni um fiskafla til vinnslu, hagkvæmustu markaðskimana, bestu stjórnendurna og annan mannauð sem og auðvitað fjármagn. Afleiðingin er m.a. lægra útflutningsverð sjávarafurða frá Íslandi en ella væri og þar með lægra útflutningsverðmæti sjávarafurða og lægra framlag sjávarútvegs til landsframleiðslunnar.“

„Veiðigjaldið er landsbyggðarskattur“
Vikið er sérstaklega í skýrslunni að áhrifum auðlindagjaldsá landsbyggðina og segja skýrsluhöfundar að um sé að ræða skatt sem leggist fremur á íbúa landsbyggðarinnar en íbúa þéttbýlisins. Um 92% heildaraflans og 85% aflaverðtmæa sé landað utan höfuðborgarsvæðisins.
„Skatturinn leggst því fyrst og fremst á fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins og þar með á það fólk sem þar býr. Hann er því skattur á landsbyggðina. Þar með er sérstakt veiðigjald á sjávarútveg í beinni mótsögn við yfirlýsta byggðastefnu stjórnvalda um að styrkja svæðin utan höfuðborgarsvæðisins og vinnur beinlínis gegn þeirri viðleitni.“

Mynd: Þorgeir Baldursson

 

 

Deila: