Afturköllunin vonbrigði

Deila:

Kristján G. Jóakimsson, verkefnisstjóri Háafells, ehf. segir það vonbrigði að leyfi til eldis regnbogasilungs og þorsks í Ísafjarðardjúpi hafi verið afturkallað. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ógilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitti fyrirtækinu í október úrskurðarnefndin segir leyfisveitinguna háða slíkum annmörkum að leyfið verði að ógilda.

„Niðurstaðan er vonbrigði, en rétt að taka fram að hún er ekki vegna annmarka hjá okkur í ferlinu heldur hjá stjórnsýslustofnun,“ segir Kristján í samtali við ruv.is. „Fyrirtækið hefur hefur stundað atvinnustarfsemi við Djúpið í 76 ár og þar af höfum við stundað slysalaust fiskeldi í yfir 12 ár og lagt okkur fram við að fara eftir lögum og reglum í einu og öllu“ segir hann.

Kristján bendir á að umsóknarferlið hafi staðið yfir síðan 2011 og að fyrirtækið hafi lagt áherslu á að vanda vel til verka og uppfylla ýtrustu kröfur til að koma til móts við ólík sjónarmið. „Miðað við stöðuna í dag fer maður að spyrja sig hvort það sé æskilegt að hafa erlenda aðila i för til að ná árangri í leyfismálavinnu,“ segir Kristján. Spurður út í hvað hann meini með því segir hann að þau fyrirtæki sem hafi fengið leyfi til sjókvíaeldis undanfarið hafi verið með öflug, norsk fyrirtæki með sér.

„Annars erum við þrátt fyrir þetta bjartsýnir og horfum fram á veginn. Við erum á lokametrunum að ljúka við umhverfismat fyrir 6.800 tonna laxeldi þar sem við væntum þess að stjórnsýslan lagfæri þau mistök sem fram koma í úrskurði nefndarinnar. Gangi áætlanir okkar eftir ættum við að geta haldið áfram markvissri uppbyggingu á eldi í Djúpinu strax á nýju ári,“ segir Kristján.

 

Deila: