Mest verðmæti fiskafla á höfuðborgarsvæðinu

Deila:

Verðmæti landaðs afla miðað við landshluta var mest á höfuðborgarsvæðinu í maí síðastliðnum. Verðmæti þar var 2,7 milljarðar, sem er örlitlu minna en í sama mánuði árið áður. Samdrátturinn er aðeins 0,9% á sama tíma og landsmeðaltalið var lækkun um 11,3%, þrátt fyrir aflaaukningu um 27%.

Þetta endurspeglar mikla lækkun á fiskverði milli ára, sem að miklum hluta má rekja til óhagstæðs gengis íslensku krónunnar fyrir útflytjendur sjávarafurða.

Næstmest aflaverðmæti voru á Suðurnesjum, 1,9 milljarðar króna, sem er samdráttur um 13%. Austurland er í þriðja sætinu með 1,7 milljarða og samdrátt upp á 10,2%.

Á Norðurlandi eystra varð aflaverðmætið 1,1 milljarður og dróst það saman um 11,7%. Aflaverðmæti á Suðurlandi varð 800 milljónir króna, sem er lækkun um 10,6%. Verðmæti landaðs afla á Norðurlandi vestra varð 719 milljónir, sem er aðeins samdráttur um 5,9%.

Á Vesturlandi varð verðmæti aflans 688 milljónir sem er lækkun um 12,2% og á Vestfjörðum varð aflinn virði 668 milljóna króna sem er fall um 17,6%.

Verðmæti afla sem fluttur var óunninn utan var tæpar 400 milljónir, sem er samdráttur um 46,3%.

Deila: