Kynning í kokkaskóla í Torino á Ítalíu

Deila:

Þann 13. október sl. stóð Íslandsstofa fyrir kynningu í Istitito Alberghiero Giolitti kokkaskólanum í Torínó. Kynningin liður í markaðsverkefninu “Leyndarmál íslenska þorsksins”, en í verkefninu hefur verið lögð sérstök áhersla á að fræða nemendur í kokkaskólum á Ítalíu, Spáni og  Portúgal um íslenskan þorsk (Baccalà Islandese).

Um 30 nemendur í skólanum voru sérstaklega valdir til að taka þátt í viðburðinum fyrir hönd skólans og byrjuðu þeir á því að hlýða á fyrirlestur um veiðar, vinnslu og mismunandi afurðir unnar úr söltuðum þorski. Eftir kynninguna sá ítalski kokkurinn Vincenzo Nocerino, sem rekur saltfiskveitingastaðinn Locanda Nonna Rosa í úthverfi Napólí, um sýnikennslu.  Hann eldaði tvo rétti úr íslensku gæðahráefni og tóku nemendur skólans virkan þátt í eldamennskunni.

Þessi kynning í kokkaskólanum í Tórínó er sú níunda sem haldin er af þessu tagi en áður hafa verið haldnar kynningar í kokkaskólum á eftirfarandi stöðum: Barcelona, Madrid, Bilbao, Valencia, Lissabon, Porto og Ottaviano sem er rétt fyrir utan Napólí.

 

Deila: