Reynslutúrinn á Viðey RE gekk vel

Deila:

Verið er að leggja lokahönd á nýjan ferskfisktogara HB Granda hf., Viðey RE-50, hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipið var í siglinga- og togprófunum í gær og segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, útgerðarstjóri ferskfiskskipa HB Granda, að allt hafi gengið eins og til var ætlast.

„Núna eru aðeins eftir smávægileg atriði í frágangi í skipinu en við reiknum með að Viðey haldi heim á leið undir næstu mánaðamót,“ segir Birkir Hrannar en heimsigling tekur rúman hálfan mánuð.

Viðey er þriðji og síðasti ferskfisktogarinn sem HB Grandi samdi um smíði á í Tyrklandi en fyrr á árinu komu Engey RE og Akurey AK. Skipin eru hönnun frá Nautic ehf. en vinnslu- og lestarkerfi eru frá Skaganum 3X. Um er að ræða fyrstu skipin í heiminum sem búin eru algjörlega sjálfvirkri lest og auk heldur er afli fullkældur á vinnsluþilfari og því er þörf á að nota ís til að halda aflanum fullkældum í lestinni. Engey RE hóf veiðar síðsumars eftir að búnaði hafði verið komið fyrir og er þessar vikurnar unnið að niðursetningu búnaðar í Akurey en skipið er í höfn á Akranesi. Strax og Viðey kemur til landsins verður hafist handa um borð við niðursetningu sams konar búnaðar í skipið. Viðey mun leysa af hólmi togarann Ottó N. Þorláksson í fiskiskipaflota HB Granda.

Á myndinni er Engey RE í höfn í Reykjavík og fjær sér í togarann Ottó N. Þorláksson en í stað hans kemur hin nýja Viðey RE 50 sem væntanleg er til landsins í desember.

 

 

 

Deila: